Fiðrildavöktun 2021 á Suðausturlandi
Náttúrustofan rekur fjórar fiðrildagildur í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Gildurnar eru á Mýrum í Álftaveri, í Mörtungu á Síðu og tvær í Einarslundi við Hornafjörð. Þær eru settar upp um miðjan apríl og teknar niður í byrjun nóvember ár hvert en tæmdar vikulega. Í gildrurnar við Einarslund komu þetta árið 2.447 fiðrildi og 475 vorflugur í aðra gildruna og 2.945 fiðrildi og 881 vorflugur í hina. Það er töluverð aukning frá fyrr ári og hefur heildarfjöldi veiddra fiðrilda í Einarslundi aldrei verið hærri. Heildarfjöldi fiðrildategunda var 29 og heildarfjöldi vorflugutegunda var 9. Þar var barrvefari (Zeiraphera griseana) algengasta fiðrildategundin og sitrubytta (Limnephilus sparsus) algengasta vorflugan. Í Mörtungu veiddust í heildina 2.231 fiðrildi og 198 vorflugur. Gífurleg fækkun var á heildarfjölda fiðrilda frá árinu á undan (13.544) en tölur þessa árs eru í ágætum takti við fyrri mælingar. Heildarfjöldi fiðrildategunda í Mörtungu var 30 og heildarfjöldi vorflugu tegunda var 8. Þar var jarðygla algengasta fiðrildategundin en sitrubytta algengasta vorflugan líkt og í Einarslundi. Rekstur fiðrildagildrunnar á Mýrum gekk brösuglega síðastliðið ár vegna rafmagns- og ljósaperu vandamála.
Náttúrustofa Suðausturlands hefur undanfarin ár rekið og safnað gögnum úr fiðrildagildrum á starfssvæðinu. Fyrsta gildran var sett upp við Einarslund í Hornafirði árið 2014. Frá árinu 2015 hafa gildrurnar verið fjórar, staðsettar á Mýrum í Álftaveri, í Mörtungu á Síðu og tvær í Einarslundi við Hornafjörð. Gildrunum er komið fyrir um miðjan apríl og vitjaðar vikulega þar til í byrjun nóvember er þær eru teknar niður. Nú er greiningum lokið á afla síðasta árs (2021). Helstu niðurstöður ársins má sjá hér að neðan en nánari upplýsingar um verkefnið, tegundalista og fleira má sjá á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. https://www.ni.is/greinar/voktun-fidrilda
Einarslundur
Við Einarslund má sjá töluverða aukningu á heildafjölda veiddra fiðrilda í báðum gildrum og hefur sá fjöldi aldrei verið meiri síðan mælingar hófust (mynd 1). Árið 2021 veiddust í gildrurnar 2.447 (gildra 1) og 2.945 (gildra 2) fiðrildi í heildina og er það aukning um 62,3% og 117,7% frá árinu áður. Tegundafjölbreytileiki hefur einnig aukist frá mælingum síðasta árs en hefur þó áður verið meiri (mynd 2). Í heildina veiddust 29 tegundir í gildru 1 og 35 tegundir í gildru 2. Gildra 2 hefur ætíð verið aflameiri og sýnt meiri tegundafjölbreytileika sem gæti skýrst á mismunandi gróðursamsetningu í nærumhverfi gildranna.
Algengustu tegundirnar í Einarslundi voru barrvefari (Zeiraphera griseana), jarðygla (Diarsia mendica), grasvefari (Eana osseana) og túnfeti (Xanthorhoe decoloraria) í báðum gildrum og stóðu þær undir 74% heildaraflans (mynd 8). Barrvefari, jarðygla og grasvefari eru í mikilli uppsveiflu (mynd 3) auk þess hefur orðið mikil aukning á dumbyglu (Apamea crenata) og stráyglu (Apamea remissa) (mynd 4). Tígulvefari (Epinotia solandriana) hefur verið í hruni síðan hann náði hámarki sínu 2018, þá 29,8% heildarafla (mynd 3). Hrun tígulvefara gæti tengst aukningu barrvefara þar sem tegundirnar tilheyra sömu vist og samkeppni ríkir milli þeirra um fæðu, búsetu og aðra þætti. Ein ný tegund bættist á tegundalista Einarslunds þetta árið, hnappvefari (Lobesia littoralis) (mynd 11).
Heildarfjöldi veiddra vorfluga í Einarslundi hefur aukist frá árinu 2020 og er nú í ágætum takti við mælingar fyrri ára, að frátöldu árinu 2019 þegar heildarfjöldi veiddra vorfluga jókst til muna (mynd 5). Tegundafjölbreytileiki vorfluga í Einarslundi hefur aldrei mælst meiri og komu í heildina 9 tegundir í gildrurnar. Mest veiddist af sitrubyttu (Limnephilus sparsus) og stóð hún undir 77% heildarafla í gildru 1 og 61% heildarafla í gildru 2 (mynd 9). Ein ný tegund bættist þetta árið á tegundalistann, tjarnabytta (Limnephilus picturatus).
Mörtunga
Miklar sveiflur hafa verið á heildafjölda veiddra fiðrilda í fiðrildagildrunni í Mörtungu (mynd 6). Árið 2021 veiddust í heildina 2.231 fiðrildi sem er gífurleg fækkun frá árinu á undan (13.544) en í ágætum takti við fyrri mælingar. Fjöldi veiddra tegunda voru 30 sem er aukning frá árinu áður þegar veiddust 26 tegundir.
Jarðygla var algengasta fiðrildategundin þetta árið með 1.326 einstaklinga veidda eða 59,4% heildarafla (mynd 8). Næst á eftir var grasvefari með 406 einstaklinga veidda. Töluverð aukning hefur orðið á barrvefara og túnfeta. Nýjar tegundir í Mörtungu voru tvær, hnappvefari og birkivefari (Acleris notana).
Heildarfjöldi veiddra vorfluga í Mörtungu jókst og hefur nú aldrei verið meiri (mynd 7). Í heildina veiddust 198 einstaklingar sem er langt yfir meðaltal fyrri ára (106). Tegundafjölbreytileiki jókst frá síðustu mælingu og tegundin tjarnabytta bættist á tegundalistann (mynd 7). Mest veidda tegundin var sitrubytta og stóð hún undir 31% af heildarafla (mynd 9).
Mýrar
Rekstur fiðrildagildrunnar á Mýrum í Álftaveri hefur gengið brösuglega. Gildran var fyrst sett upp árið 2019 og var þetta því þriðja sumarið sem gildran var í gangi. Upp hafa komið rafmagnsvandamál, sprungnar perur, bilaðar leiðslur og eru gögnin því slitrótt og nýtast illa sem vöktunargögn.
Samantekt og úrvinnsla var unnin af Rannveigu Rögn Leifsdóttur.