Myrkvar valinna myrkvastjarna og þvergöngur fjarrreikistjarna – Yfirlit 2020.

 

Út er komin rafræn skýrsla þar sem greint er frá ljósmælingum á völdum myrkvatvístirnum og fjarreikistjörnum, sem flestar voru gerðar frá Hornafirði árið 2020. Höfundur hennar er Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Þar er sagt frá myrkvatvístirnunum HX UMa, V 523 Cas, V 477 Peg, V 549 And, V 705 And og V 473 Cam. Eitt markmiða er að tímasetja myrkvana og bera saman við viðurkennda spátíma. Í þéttstæðum kerfum getur lotulengd breyst, m.a. vegna massaflutnings á milli stjarnanna. Athuganirnar nýtast því til að ákvarða stöðugleika myrkvatvístirnanna og gera líkön af þeim. Í tveim tilfellum eru birt líkön af stjörnukerfunum þar sem stærðarsamanburður er gerður við sólina.

Næst er greint frá mælingum á þvergöngum fjarreikistjarnanna WASP 10b, HAT-P-51b, TrES 5b, Qatar 4b, HAT-P-16b, HAT-P-19b, HAT-P-52b, K2-30b, XO-6b, HAT-P-32b, Qatar 1b og WASP 33b. Þær mælingar upplýsa myrkvadýpt, lengd þvergöngu og tímafrávik. Vöktun á þessum stjörnum gerir kleift að meta tímafrávik sem benda til óreglu í umferðartíma eða eru vísbendingar um áhrif óséðra massa á kerfin. Niðurstöður á myrkvastjörnum og þvergöngum fjarreikistjarna eru sendar í alþjóðlegan gagnagrunn stjörnufræðifélags Tékklands þar sem að þau eru aðgengileg stjarnvísindasamfélaginu, ásamt mæligögnum annarra stjörnufræðinga og stjörnuáhugamanna.

Þetta er fimmta skýrslan um stjarnfræðilegar mælingar sem Náttúrustofa Suðausturlands gefur út. Fyrri skýrslur komu út árin 2016, 2018, 2019 og 2020. Þær eru aðgengilegar á https://nattsa.is/utgefid-efni/. Markmið útgáfunnar er að birta stjarnfræðilegar mælingar sem eru að öllu leyti framkvæmdar hér á landi. Hægt er að nálgast skýrsluna á rafrænu formi hér.

Yfirlit um íslenska jökla 2020

Fréttabréf, vegna verkefnisins „Hörfandi jöklar“, er komið út. Það upplýsir um jöklabreytingar og niðurstöður mælinga á stöðu jökulsporða árið 2020. Þar kemur fram að afkoma íslenskra jökla var lítillega neikvæð það ár, og þó að flestir sporðar hafi hopað tugi metra hafi orðið vart við að nokkrir brattir skriðjöklar hafi sigið svolítið fram. Mest hopaði Breiðamerkurjökull um 100-250 metra. „Hörfandi jöklar“ er samvinnuverkefni sem Náttúrustofa Suðausturlands kemur að ásamt Veðurstofu Íslands, Jöklahópi Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Vatnajökulsþjóðgarði, og er fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ýtarlegri fréttaskýringu er að finna á vef Veðurstofunnar og tengill á fréttabréfið er hér. RÚV sagði einnig frá fréttabréfinu, sjá hér.

Að fóstra jökul

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein þar sem stiklað er á stóru í sögu jökulsporðamælinga hér á landi og greint frá aðferðum og vöktun sem sjálfboðaliðar Jöklarannsóknafélags Íslands sinna. Mælingar á breytingum jökulsporða hófust árið 1930, þegar Jón Eyþórsson veðurfræðingur hóf kerfisbundnar mælingar. Fékk hann í lið með sér heimafólk, oftast bændur, til þess að annast mælingarnar en í seinni tíð fer fólk úr ýmsum starfsstéttum til mælinga. Sumir jöklanna hafa verið vaktaðir í 90 ár og því eru hér til gagnmerkar tímaraðir sporðabreytinga. Mælingarnar sýna skýr tengsl veðurfars- og jöklabreytinga en þessar tímaraðir geyma einnig upplýsingar um framhlaup margra jökla. Í greininni, sem er eftir Hrafnhildi Hannesdóttur, Odd Sigurðsson og Berg Einarsson á Veðurstofu Íslands og Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands, eru kort sem sýna mælingastaði við jöklana, bæði þar sem mælingar eru stundaðar og þar sem þeim hefur verið hætt. Ágrip að greininni er hér.