Að fóstra jökul
Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein þar sem stiklað er á stóru í sögu jökulsporðamælinga hér á landi og greint frá aðferðum og vöktun sem sjálfboðaliðar Jöklarannsóknafélags Íslands sinna. Mælingar á breytingum jökulsporða hófust árið 1930, þegar Jón Eyþórsson veðurfræðingur hóf kerfisbundnar mælingar. Fékk hann í lið með sér heimafólk, oftast bændur, til þess að annast mælingarnar en í seinni tíð fer fólk úr ýmsum starfsstéttum til mælinga. Sumir jöklanna hafa verið vaktaðir í 90 ár og því eru hér til gagnmerkar tímaraðir sporðabreytinga. Mælingarnar sýna skýr tengsl veðurfars- og jöklabreytinga en þessar tímaraðir geyma einnig upplýsingar um framhlaup margra jökla. Í greininni, sem er eftir Hrafnhildi Hannesdóttur, Odd Sigurðsson og Berg Einarsson á Veðurstofu Íslands og Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands, eru kort sem sýna mælingastaði við jöklana, bæði þar sem mælingar eru stundaðar og þar sem þeim hefur verið hætt. Ágrip að greininni er hér.