Yfirlitsgrein um mófugla á Íslandi
Á dögunum birtist ritrýnd vísindagrein í alþjóðlega vísindaritinu Wader Study sem dr. Lilja Jóhannesdóttir, starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, vann ásamt félögum sínum við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og við háskólana í Austur Anglíu í Bretlandi og í Aveiro í Portúgal. Greinin ber heitið “Icelandic meadow-breeding waders: status, threats and conservation challenges”, sem útleggst nokkurn veginn á íslensku sem svo: Íslenskir mófuglar: staða, ógnir og áskoranir við verndun.
Greinin er yfirlitsgrein um stöðu algengustu vaðfuglategunda sem verpa í úthaga á Íslandi. Farið er yfir stofnstærðir, lýðfræðilega þekkingu (þá litlu sem til er), stöðu verndar og helstu ógnir sem stafa að þessum tegundum. Hér á Íslandi höfum við ofurstóra vaðfuglastofna (samanborið við nágrannalönd okkar sem mörg hafa gengið alltof harkalega á búsvæði þeirra) sem við höfum skuldbundið okkur til að vernda með þáttöku okkar í fjölda alþjóðlega samninga. Mikilvægi Íslands í því samhengi er gríðarmikið, en til dæmis má nefna 34% heimsstofns heiðlóu og 27% spóans verpur hér á landi, og því mikilvægt að við umgöngumst þessar tegundir og búsvæði þeirra af virðingu. Ein helsta ógnin sem þessi fuglar búa við á Íslandi er búsvæðatap og loftslagsbreytingar. Það er því nauðsynlegt að við skipulag framkvæmda sé fylgt eftir ákvæðum alþjóðasamninga, tekið tillit þarfa fugla og að við Íslendingar gerum allt sem í okkar valdi stendur til að sporna við loftslagsbreytingum.
Myndin sýnir upplýsingar um algengustu vaðfuglategundir sem finnast í íslenskum úthaga. Sökum þess hversu hátt hlutfall af heimsstofni verpur hér berum við alþjóðlega ábyrgð á að vernda þessar tegundir.
Hér er hlekkur á greinina: https://www.waderstudygroup.org/article/12186/