Jökulvötn í Skaftárhreppi
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um Jökulvötn í Skaftárhreppi. Er hún afrakstur samnings sem gerður var milli Náttúrustofu Suðausturlands og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, en einn liður í þeim samningi var að gera skipulega samantekt (skýrslu) á fyrirliggjandi gögnum um jökulvötn í Skaftárhreppi og áhrif þeirra.
Höfundar skýrslunnar eru Pálína Pálsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir, báðar búsettar í Skaftárhreppi. Leitað var fanga á ýmsum sviðum og í samstarfi við margar stofnanir og einstaklinga og þannig reynt að fá sem heilstæðasta mynd af jökulvötnunum og áhrifum þeirra.
Í skýrslunni er greint frá jökulvötnum í Skaftárhreppi og áhrifum þeirra á náttúru og samfélag, en þar á sér stað talsvert gróður- og landrof af völdum jökulvatna. Í byrjun október árið 2015 hljóp úr eystri Skaftárkatli í Vatnajökli og reyndist það vera rennslismesta Skaftárhlaup síðan mælingar hófust árið 1951 eða um 3.000 m3/sek. Þar sem um var að ræða stærri atburð en áður hafði sést var ráðist í gerð þessarar skýrslu að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Einnig er sagt frá áhrifum loftslagsbreytinga á jökulvötn og nýtingu vatnsafls ásamt því hvernig hægt er að aðlagast breytingum þeim tengdum. Farið er yfir helstu viðbragðsaðila þegar kemur að náttúruhamförum og hvernig megi að draga úr tjóni af þeirra völdum með skipulegri áhættustýringu og viðbragðsáætlunum.
Skýrslan er vistuð á vef Náttúrstofu Suðausturlands (nattsa.is), en einnig verður hægt að finna eintök á héraðsbókasafni Skaftárhrepps, skrifstofu Skaftárhrepps, Kirkjubæjarstofu, hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, höfundum og fleirum.
Einnig er hægt er að sækja skýrsluna hér:

Helsingjavarp á Suðausturlandi
Helsingja hefur fjölgað nokkuð hratt hér á suðausturhorninu á síðastliðnum árum eins og grafið hér að neðan sýnir en þar er þróun í fjölda helsingjahreiðra í Skúmey (í Jökulsárlóni) sýnd. Þessa dagana er Náttúrustofa Suðausturlands, ásamt Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands að kortleggja varpútbreiðslu helsingjans og þiggjum við allar upplýsingar um hvar hann er að verpa. Ef þið vitið um helsingjahreiður vorið 2019, látið okkur endilega vita á fésbókarsíðu okkar, eða með öðrum mögulegum leiðum s.s. símtali eða tölvupósti. Bestu þakkir!

Helsingjar í Austur-Skaftafellssýslu – Stofnstærð og varpútbreiðsla 2014
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um helsingja í Austur-Skaftafellssýlus- stofnstærð og varpútbreiðsla 2014. Verkefnið var samvinnuverkefni með Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og var styrkt af Veiðikortasjóði Umhverfis– og auðlindaráðuneytisins.
Sumarið 2014 var farið á nokkur svæði í Austur-Skaftafellssýslu sem álitið var að helsingjar kynnu að verpa. Hreiðurstæði voru hnitsett og talin á hverjum stað. Vitað var að árið 2009 voru um 40 helsingjahreiður í Austur-Skaftafellssýslu en fyrirfram talið að þeim hefði fjölgað nokkuð síðan þá. Talningin sumarið 2014 leiddi í ljós að hreiðrin voru að minnsta kosti 509. Fjölgun helsingjapara sem verpa á Suðausturlandi hefur því verið mjög hröð síðastliðin ár, eða meira en 1200% aukning á fimm árum.
Síðustu áratugi hefur veðurfar á Íslandi breyst, meðalárshiti hækkað og ársúrkoma aukist. Ef horft er til þess að helsingjar verpa að jafnaði á mun norðlægari stöðum kemur fjölgun helsingjavarpa nokkuð á óvart. Helsingjar hafa hingað til orpið á svölum stöðum s. s. á Grænlandi og Svalbarða. Því er ekki að sjá að skýra megi fjölgunina út frá veðurþáttum. Aðrir þættir líkt og fæðuframboð og landslag spila þar líklega inn í, bæði á Íslandi og öðrum varpstöðum.
Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.