Veðurfar á Höfn – hálfsárs uppgjör
Þegar rýnt er í veðurtölur fyrir Höfn frá áramótum og til júníloka árið 2014, má sjá að þar hefur verið mun hlýrra en meðalárið og einnig mun úrkomumeira. Stærsta frávikið í hitatölum má sjá í janúar (4,0°C), en minsta í mai (0,9°C). Mesta frávikið í úrkomutölum má sjá í í janúar þegar úrkoman var um 280 % af mánaðarmeðaltalinu, en minnsta frávikið var í júní, þegar einungis rigndi um 57 % af mánaðarmeðaltalinu. Það sem af er júlí (skrifað 7.júlí) hafa mælst um 78 mm á Höfn, en meðaltal júlímánaðar er um 88 mm (1981-2010) svo ekki er langt í land að meðaltalið náist þennan mánuðinn hvað varðar úrkomu.
Út frá þessum tölum má sjá að mánuðirnir frá áramótum hafa verið hagstæðir fyrir allan gróður, skepnur og menn á þessu svæði, hlýtt og rakt, en þó hafa einnig verið góðir og sólríkir dagar inn á milli.
Sláttur hófst snemma hjá mörgum bændum í sveitarfélaginu og nokkrir eru farnir að taka upp kartöflur. Má því búast við góðri uppskeru þetta sumarið en einnig bera bláberjalyng og krækiberjalyng talsvert af sætukoppum og grænjöxlum svo líkur eru á góðu berjasumri.
Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir meðalhita á Höfn árið 2014 og frávik frá 30 ára meðaltali (1961-1990)
Mánuður | Meðalhiti (°C ) | Frávik frá meðaltali 1961-1990 ( °C) |
Janúar |
4,1 |
4,0 |
Febrúar |
2,5 |
1,9 |
Mars |
3,5 |
2,3 |
Apríl |
5,4 |
2,6 |
Mai |
7,2 |
0,9 |
Júní |
10,9 |
2,4 |
Tafla sem sýnir mælt úrkomumagn á Höfn 2014 og hlutfall af 30 ára meðaltalsúrkomu (1961-1990)
Mánuður | Úrkomumagn (mm) | Hlutfall úrkomu af meðaltali 1961-1990 (%) |
Janúar |
369,7 |
281,4 |
Febrúar |
195,8 |
147,7 |
Mars |
211,7 |
192,5 |
Apríl |
121,5 |
143,1 |
Mai |
67,1 |
85,4 |
Júní |
40,7 |
56,9 |
Á vef Veðurstofu Íslands má sjá finna yfirlit yfir veðurfar í Reykjavík og á Akureyri fyrstu fimm mánuði ársins. Þar er sagt frá því að óvenjuhlýtt hafi verið í Reykjavík það sem af er ársins og einungis hafi þrisvar sinnum verið hlýrra þar frá upphafi samfelldra mælinga, 1871. Það var árið 1964, 1929 og 2003. Á Akureyri hafa fyrstu fimm mánuðir ársins aðeins verið sex sinnum hlýrri (frá 1882 að telja).
Ekki er hægt að finna sambærilegar tölur fyrir Höfn eða veðurstöðvar sem þar hafa verið starfræktar, en eitt er víst að það sem af er ári hefur veður verið gott á margan hátt, hlýtt og mátulega blautt.
Hvernig framhaldið verður skal ósagt látið.
Í krækjunum hér fyrir neðan má sjá myndrænt hvernig meðalmánaðarhiti hefur verið á Höfn og hvernig úrkoman var í hverjum mánuði það sem af er árinu.