Snævarr Guðmundsson tók myndina

Veðrið á Höfn í nýliðnum janúar

Nýliðin janúar var óvenju hlýr og úrkomusamur.  Sökum þess hafa ræktuð tún í Hornafirði grænkað líkt og komið sé vor, ólíkt fréttum af kalskemmdum víða annars staðar á landinu. Sú spurning vaknar hvort hita- og úrkomumet voru slegin í janúarmánuði 2014 á Höfn?

Veðurathuganir hafa verið gerðar á Höfn frá 2007, en áður voru mælingar gerðar þar á árunum 1965-´85. Veðurskeytastöðin er í dag staðsett við Höfðaveg og eru veðurathugunarmenn Herdís Tryggvadóttir og Stephen Róbert Johnson . Í janúar 2014 mældu þau 369,7 mm af úrkomu, sem er mesta úrkoma sem mæld hefur verið á Höfn. Í samanburði mældust þar árið 2013 einungis 207,6 mm.  

Ef skoðaðar eru úrkomumælingar í janúar á Höfn, Hjarðarnesi (1985-1992) og Akurnesi (1992-2006) undanfarna áratugi sést að aðeins einu sinni hefur mælst meiri úrkoma á þessum þremur stöðvum, það var í Akurnesi árið 2002 þegar það komu 379,8 mm í úrkomumælinn. Því miður er engin mæling til fyrir Höfn frá 2002.

Þegar skoðaðir eru þeir janúarmánuðir þar sem mánaðarúrkoma hefur verið meiri en 200 mm á þessum þremur athugunarstöðvum má sjá að nýliðinn janúar er í öðru sæti hvað varðar úrkomumet, en í 11 sæti er janúar 2013.

Tafla sem sýnir 12 úrkomumestu janúarmánuði á Höfn, í Akurnesi og Hjarðarnesi. Nýliðinn janúar er í öðru sæti, en vinninginn hefur Akurnes árið 2002. Sé einungis horft á Höfn þá er nýliðinn janúarmánuður úrkomumetsmánuður.

solarhringsurkoma-jan-2014

Mynd sem sýnir sólarhringsúrkomu á Höfn í janúar 2013 og 2014. Árið 2013 voru tveir þurrir sólarhringar á Höfn í janúar en í heild mældist 207,6 mm úrkoma þann mánuð, mest 25 mm frá kl. 09 þann 1. janúar til kl. 09 þann 2. janúar. Árið 2014 voru þurrir sólarhringar fimm í janúar en úrkoman í heild mældist 369,7 mm. Úrkomumesta sólarhringinn, frá kl. 09 þann 15. janúar til kl. 09 þann 16. janúar, mældist 40,2 mm úrkoma.

Úrkoma-jan-2014

Línurit sem sýnir uppsafnaða úrkomu á Höfn í janúar 2014, heildarmagnið var 369,7 mm. Á sama tíma mældust einungis 64,2 mm í Reykjavík.

Meðalhitinn á Höfn í janúar var 4,1 stig og hefur meðalhiti aldrei orðið svo hár á Höfn – en mælingar þar hafa ekki verið samfelldar. Þetta er samt trúlega hlýjasti janúar í Hornafirði frá 1947 að telja.  Á Hvalnesi fór hiti lægst niður í +0,1 stig. Þar fraus því aldrei í janúar 2014, hvorki nótt né dag. Hvort þetta segir eitthvað um hvernig sumarið eða næstu mánuðir verða, skal ósagt látið.