Uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd og eftirlíking gæsabeitar á bygg að vori 2014
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd og eftirlíking gæsabeitar á bygg að vori 2014. Verkefnið var unnið í samvinnu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Suðurlands, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og var styrkt af Veiðikortasjóði Umhverfis– og auðlindaráðuneytis.
Í skýrslunni greinir frá tveimur tilraunaverkefnum sem voru unnin árið 2014. Önnur rannsóknin (Rannsókn I) var gerð á Suðausturlandi en þar var borin saman uppskera í friðuðum reitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Hin rannsóknin (Rannsókn II) var gerð á Korpu þar sem líkt var eftir beit gæsa á bygg að vori. Þar var sláttuvél notuð til að líkja eftir gæsabeitinni. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori á uppskeru og þroska byggs.
Niðurstöður úr Rannsókn I sýna að mismunur á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum var að meðaltali 520 kg af þurrefni á hektara. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 18% minni þar sem fuglarnir bitu túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því tæpar tvær rúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Með kostnaðarútreikningum má sjá að mismunur í uppskeru kostaði að meðaltali 17.082 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjöldann, en töluverðar líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.
Í Rannsókn II mátti sjá að slátturinn hafði mismunandi áhrif eftir þroskastigi plantna við slátt, en í heildina rýrði slátturinn (beitin) uppskeruna og þroskastig kornsins tók skref afturábak. Einnig hefur beitin áhrif á gæði kornsins til hins verra.
Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.
Vorið 2015 voru settir út tilraunareitir á 6 staði á Suðausturlandi og verður unnið úr niðurstöðum þeirrar tilraunar veturinn 2015-2016.