Færslur

Horft yfir eyjar Skarðsfjarðar, Langaneshólmi í forgrunni.

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrki

Undanfarið hefur Náttúrustofan hlotið styrki til fjögurra nýrra verkefna sem hefjast í sumar. Þann 6. mars hlutu tvö verkefnanna styrki frá Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar upp á 2 milljónir hvort. Verkefnin snúa að rannsóknum á niturnámi í kolefnissnauðum jarðvegi annars vegar og smádýralífi í leirum Skarðsfjarðar hins vegar. Daginn eftir, 7. mars, fékk stofan einnig tvo styrki frá atvinnu- og rannsóknarsjóð Sveitarfélagsins Hornafjarðar, hlaut þar verkefnið niturnám í kolefnissnauðum jarðvegi annan styrk upp á 250.000 kr en einnig hlaut verkefnið kortlagning jarðmyndana við Höfn í Hornafirði styrk upp á 277.000 kr. Þann 10. mars hlaut stofan svo tvo verkefnastyrki til viðbótar frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, fékk verkefnið smádýralíf í leirum Skarðsfjarðar annan styrk upp á 1,5 milljón en einnig fékk verkefnið áhrif vega á kolefnibúskap mýrlenda styrk upp á 1,6 milljón.

Niturnám í kolefnissnauðum jarðvegi

Róbert tekur á við styrkjum Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar

Róbert tekur við styrkjum Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar

Róbert Ívar Arnarsson stýrir verkefninu sem fellst í að skoða niturbindandi örverur í jarðvegi á Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi. Aðstæður í umhverfi niturbindandi örverusamfélögum verða skoðaðar auk þess að athugað verður hvaða jarðvegseiginleikar stuðla að landnámi þeirra og hversu skilvirk uppsöfnun niturs í jarðvegi er sem hýsir þau samfélög. Lítið er vitað um þær lífverur sem bera ábyrgð á niturnámi á söndum Íslands og er þetta verkefni eitt af fyrstu skrefum í öflun á þeirri þekkingu.

Smádýralíf í leirum Skarðsfjarðar

Hólmfríður Jakobsdóttir fer með umsjón verkefnisins sem gengur út á að meta hvort breytingar hafa orðið á smádýralífi í leirum Skarðsfjarðar síðustu áratugi. Tekin verða sýni úr leirunum í Sílavík og Flóa í Skarðsfirði og gögnin borin saman við eldri úttekt frá árinu 1979. Einnig verða tekin sýni úr seti leiranna og kolefnismagn í þeim greint sem mun dýpka skilning okkar á kolefnisbúskap leiranna. Gögnin úr rannsókninni munu gefa yfirlit yfir smádýralíf á svæðinu sem nýtist meðal annars til að meta ástand svæðisins og áhrif t.d. vegna loftslagsbreytinga, svo sem breytinga á jökulám og landriss eða vegna athafna mannanna svo sem landfyllingar og mengunar.

Kortlagning jarðmyndana við Höfn í Hornafirði

Á síðustu árum hefur atvikast að í framkvæmdum eða skipulagi á Höfn var ekki gefinn gaumur að athyglisverðum jarðminjum. Þar má nefna Topphól sem var sprengdur burt fyrir tveim árum og merkilegar trjábolaafsteypur sem eru í hættu við iðnaðarsvæðið við Miðós á Höfn. Minnisblað um merkar jarðmenjar í bæjarlandi Hafnar var tekið saman haustið 2022 og sent umhverfis- og skipulagsvöldum. Athyglisverðar jarðmyndanir eru svo víða innan Hafnarbyggðar að kanna þarf hvort fleiri slíkar séu í grenndinni, þ. á m. eyjum og skerjum í fjörðunum. Markmið verkefnisins er að kanna berggrunn og skrásetja merkilegar jarðmyndanir. Yfirlitið um fágætar jarðmyndanir mun m.a. nýtast umhverfis- og skipulagsyfirvöldum í framtíðarskipulagi. Meðan verkið er unnið verður umhverfis- og skipulagsstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar haldið upplýstum um verkið. Snævarr Guðmundsson fer með umsjón verkefnisins.

Áhrif vega á kolefnibúskap mýrlenda

Mýrlendi eru stærstu kolefnisgeymar á landi og varðveita um þriðjung af öllu kolefni sem finnst í jarðvegi á heimsvísu. Virkni mýrlendis sem kolefnisgeymis byggist á súrefnissnauðum aðstæðum í jarðvegi sem hægir á niðurbroti plöntuleifa. Rask á vatnsbúskapi mýrlenda getur aukið aðgengi súrefnis og komið af stað niðurbroti á plöntuleifum. Í Sveitarfélaginu Hornafirði, við Hornarfjarðarfljót, var nýlega lagður vegur í gegnum mýrlendi. Verkefninu er ætlað að meta afleiðingar lagningar nýs vegar um Hornafjaðarfljót en óljóst er hver áhrif hans eru á kolefnisforða mýranna. Skoðað verður hvort aukning hafi orðið á losun koltvísýrings úr jarðvegi, hvort breytingar hafi orðið á vatnshæð í jarðvegi og hvort aukning hafi orðið á hlutfalli steinefna í jarðveginum. Þessi rannsókn mun auka skilning okkar á áhrifum mannsins á náttúruna og nýtast til skilvirkari mótvægisaðgerða eftir sambærilegar framkvæmdir. Róbert Ívar Arnarsson fer með umsjón þessa verkefnis.

 

Við á Náttúrustofu Suðausturlands erum Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar, atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Rannsóknasjóði Vegargerðarinnar þakklát og fögnum því að verkefnin hafi hlotið brautargengi. Styrkveitingar sem þessar eru mikilvægar starfsemi stofunnar og styrkja mátt okkar til að sinna fjölbreyttum rannsóknum á náttúru Suðausturlands. Þær dýpka skilning okkar á náttúrlegu ferlum sem eru að verkum auk þess að afla betri upplýsinga um mikilvægi og fjölbreytileika náttúrunnar. Þetta er í þriðja skipti sem stofan fær styrk frá Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar en áður hafa fengist styrkir fyrir rannsóknum á klettafrú og kolefnisbindingu og -flæði úr jarðvegi í Skaftárhreppi. Stofan hefur hlotið fjölmarga styrki út atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar til ýmissa náttúrurannsókna í sveitarfélaginu. Stofan hefur einu sinni áður fengið styrk frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Við hlökkum til að sjá þessi verkefni verða að veruleika og erum spennt fyrir að niðurstöðum þeirra.

Styrkþegar atvinnu- og rannsóknarsjóðs sveitarfélagsins Hornafjarðar á Minningarhátíð sveitarfélagsins 2025. Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Styrkþegar atvinnu- og rannsóknarsjóðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar á Menningarhátíð sveitarfélagsins 2025. Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar