Ein myndasería á sýningunni

Sýning á kortum og myndum í anddyri ráðhúss Hornafjarðar

Á vegum Náttúrustofu Suðausturlands verður í dag opnuð sýning í anddyri ráðhúss Hornafjarðar á kortum og myndum sem sýna jökla og jöklabreytingar.

Sýningin er hluti af ráðstefnu Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn, Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sem nefnist  „Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu.“  Ráðstefnan verður haldin 28.-30. apríl, en sýningarnar í ráðhúsinu, í Svavarssafni og Nýheimum verða opnar áfram í sumar.

Kort búa yfir sérstöku afli til þess að tengja saman margvíslegar upplýsingar og miðla sjónrænt á einfaldan, áhrifaríkan og aðlaðandi hátt. Kort eru því afar öflugur upplýsingamiðill en ekki ætíð hlutlaus mynd af raunveruleikanum, ekki fremur en kortagerðarmaðurinn eða tilgangur verksins. Áróðursaflið hefur lengi verið vitað og óspart nýtt af þjóðum, stofnunum og öðrum sem hafa þurft að koma upplýsingum á framfæri. En kort segja meira en 1000 orð.

Fyrr á öldum kostaði kortlagning óhemjufé og tíma og var einungis á framfæri lærðra kortagerðamanna. Frá um 1960 hafa tækniframfarir umbreytt  kortagerð og flutt frá pennableki í tölvutækni. Nútímakortagerð vinnst hvar sem er svo fremi sem gagnagrunnar eru fyrir hendi.

Kortum er skipt í staðfræðileg kort og áherslukort. Staðfræðileg kort lýsa landfræðilegum staðháttum og draga upp misnákvæma staðfræðilega mynd af landshlutum eða borgum. Íslandskort er dæmi um staðfræðikort og sömuleiðis götukort. Áherslukort birta eigindlegar eða tölfræðilegar upplýsingar af einhverju tagi. Slík kort sjást allstaðar og í hinum fjölbreytilegustu birtingarmyndum. Mannfjöldakort eða úrkomukort eru áherslukort og á sýningunni er sprungusvæðakort sem er dæmi um síkt áherslukort.

Kortagerð getur sameinað þætti sem í fyrstu virðast óskyldir eins og vísindi, fagurfræði og listir. Að baki upplýsinga liggur öflun gagna og oft á tíðum gríðarlegt vinnuframlag sem ekki þarf að birtast á sjálfum kortunum. Fagurfræðileg myndræn framsetning er svo lykillinn að vekja athygli á upplýsingum í kortum. Þetta er nefnt vísindaleg sjónsköpun, og er vogaraflið á milli vísinda og lista.

Á sýningunni gefur að líta nokkrar gerðir af kortum, en einnig nokkrar myndir sem teknar hafa verið á sama stað, með margra nokkurra ára millibili. Þessar myndir sýna þær miklu breytingar sem orðið hafa á jöklum á Suðausturlandi síðustu áratugina og árhundruðin.

Njótið sýningarinnar

Myndir frá sama sjónarhorni, með meira en 100 ára millibili.

Myndir frá sama sjónarhorni, með meira en 100 ára millibili.

Kort af Breiðamerkursandi með línum sem sýna hvar jökulinn var á hverjum tíma.

Kort af Breiðamerkursandi með línum sem sýna hvar jökulinn var á hverjum tíma.