Styrkir frá Vinum Vatnajökuls
Í gær tók Náttúrustofa Suðausturlands við tveimur styrkjum í verkefni sem stofan mun m.a. vinna að á nýju ári.
Annar styrkurinn er í verkefni sem kallast „Náttúrustígur“. Í lýsingu á verkefninu segir: Á göngustíg sem liggur vestanmegin við byggðina á Höfn í Hornafirði er ætlunin að koma fyrir upplýsingum um náttúruna í víðu samhengi. Frá stígnum er frábært útsýni til jökla og suðausturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsta skrefið er að koma fyrir líkani að sólkerfinu í réttum hlutföllum, hvað varðar stærð og fjarlægðir.
Hin styrkurinn er í verkefni sem kallast „Aldursgreining gróðurleifa við Breiðamerkurjökul“. Í lýsingu á því verkefni segir: Nýverið fannst gróðurlag milli setlaga í jökulaur framan við Breiðamerkurjökul. Setlagaopnan er nýlega komin undan jökli (um 2009) og situr óhögguð á upprunalegum myndunarstað. Jökullinn skreið yfir þetta svæði fyrir árið 1700 en áður lagðist jökulaur yfir gróðurlagið og varði það fyrir hnjaski. Venjulega eyða jöklar gróðri þegar þeir ganga yfir land og afmá þar með gróðurfarssögu í jarðlögum. Því er hér um einstakan fund að ræða. Í laginu er mór, mosi, birki, víðir og fleiri jurtategundir. Þessar lífrænu leifar þarf að aldursgreina til þess að finna aldur gróðursins og skýra hvenær gróðurlendi breyttist í Breiðamerkursand við kólnandi loftslag.
Alls hlutu 22 verkefni styrki og má lesa nánar um það á vef Vina Vatnajökuls og fréttir af styrkveitingunni á mbl.is og ruv.is
Óskar Náttúrustofa Suðausturlands öðrum styrkþegum til hamingju með sína styrki.