Stjörnustöð – heimsóknir á opið hús – póstlisti
Miðvikudaginn 19. febrúar 2014 hélt Náttúrustofa Suðausturlands „opið hús“ í nýju stjörnustöðinni sem sett var upp nærri Fjárhúsavík nú í vetur. Þar gafst bæjarbúum tækifæri til þess að skoða aðstöðuna og sjálft húsið sem er mikil völundarsmíð, með snúanlegu og opnanlegu þaki. Ekki var hægt að skoða stjörnur þetta kvöld því himinn var þungskýjaður. Gestir sem litu við nutu þess í stað leiðsagnar um bygginguna, markmið hennar auk annars spjalls og fengu með heitt kakó og piparkökur. Á staðnum var einnig listi sem fólk gat skráð á nafn, netfang og símanúmer. Ætlunin er að þegar viðrar til stjörnuskoðunar á næstu vikum verði tilkynning send til þeirra og þeim boðið að kíkja. Þeir sem ekki sáu sér fært að kíkja við síðastliðinn miðvikudag en vilja vera á slíkum póstlista geta sent póst á starfsmenn Náttúrustofu á info@nattsa.is, eða fyllt út í fyrirspurnar formið sem er neðst á heimasíðunni.
Umfjöllun erlendis
Það er víðar en á Höfn sem stjörnustöðin hefur fengið athygli. Í ástralska dagblaðinu Maitland Mercury, sem er gefið út í Maitland í Hunter – dal, Nýju South Wales birtist dálkagrein um stöðina skömmu fyrir áramót. Hér má sjá umfjöllunina:
Dagblaðið heldur úti blaðadálki um vísindi í víðum skilningi. Dálkahöfundurinn Col Maybury hefur nokkrum sinnum ritað um Ísland.