Stiklað á stóru í starfi Náttúrustofu Suðausturlands árið 2019
Á Suðausturlandi er náttúran einstök, jafnvel á heimsvísu. Óvíða er jafn gott aðgengi að jöklum, hér er auðugt fuglalíf árið um kring og nokkrar dýrategundir eru nánast eingöngu bundnar við þennan landshluta. Það eru til dæmis tröllasmiður, helsingi (í varpi) og hreindýr, sem reyndar dreifast um austanvert landið. Jarðfræðin hér er einkar fjölbreytt, enda landið byggt upp af eldsumbrotum fyrir milljónum árum síðan sem jöklar hafa svo mótað í stórfenglegt landslag. Það má því með sanni segja að starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands búi við einstök tækifæri til rannsókna. Hjá stofunni starfa náttúrufræðingar með víðtæka þekkingu á veðri og loftslagsbreytingum, jöklum og jöklabreytingum, fuglum og vistkerfum svæðisins.
Viðfangsefnin sem við sinnum eru fjölbreytt vegna síkvikrar náttúru. Veðrið ræður miklu og með hlýnandi loftslagi og öfgum í veðri þurfum við að aðlaga hegðun og skipulag að þeim breytingum sem eiga sér stað í umhverfi okkar. Á síðustu tveim árum hefur Náttúrustofan, ásamt Vatnajökulsþjóðgarði, tekið þátt í fjölþjóðlegu verkefni um aðlögun að loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Lokaráðstefna verkefnisins CLIMATE var haldin í Hoffelli í lok nóvember. Þátttaka okkar í slíku starfi er ekki tilviljun því segja má að við séum stödd í lifandi kennslustofu um loftslagsbreytingar allt árið um kring. Jöklarnir breytast ört og hopa og er ein afleiðing þess að framan við skriðjökla myndast jökullón sem stækka sífellt. Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur stofunnar, hefur verið að skoða hve hratt þau stækka og breytast en niðurstöður mælinga hans munu birtast í næsta ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, Jökli.
Samhliða hopi jökla verða breytingar á farvegum jökulánna og framburði. Árkvíslum fækkar og eftir að jökulvötnin taka að renna úr lónum myndast stöðugri farvegir. Í gömlum árfarvegum er hins vegar skráð atburðarás sem er í raun saga jökulvatnanna, hvar árnar runnu tímabundið, hvar jökuljaðrar lágu og hvernig vatnsföllin hafa mótað landið. Á Náttúrustofunni hefur verið unnið að kortlagningu á farvegum Jökulsár á Breiðamerkursandi. Nú hefur verið lokið við að skrá flestalla þekkta farvegi árinnar á kort, en slíkt nýtist meðal annars við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar Breiðamerkursands og skipulagsvinnu við Jökulsárlón sem unnið er að í augnablikinu.
Jöklarnir eru stórvirkir í að rjúfa og móta landið á margan hátt og ber allt Suðausturland þess merkis. Rof jökla skilur eftir opnur að djúpbergi, en slíkt berg hefur storknað á miklu dýpi í jarðskorpunni. Annað sem fylgir jöklum eru grettistök en það eru m.a. stórgrýti sem berast með jökli langt frá upprunastað. Nú hefur verið lokið við gerð steinagarðs við náttúrustíginn á Höfn en í honum eru átta stórgrýti víðs vegar að úr sveitarfélaginu. Markmið garðsins er að kynna algengar bergtegundir sem hér finnast, en á hverjum steini eru upplýsingar um uppruna og þyngd.
Nábýli við jöklana olli íbúum oft miklum skakkaföllum, allt fram á miðja 20. öld. Þó að jöklarnir hafi minnkað og minni ógn stafi af þeim geta þeir enn í dag valdið miklum skaða. Dæmi um það eru jökulhlaup en eitt af verkefnum stofunnar sem lokið var við á þessu ári var skýrsla fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Í henni eru teknar saman allar fáanlegar upplýsingar um jökulvötn og -hlaup í Skaftárhreppi. Þar er bæði rýnt í áhrif jökulvatna á náttúruna og samfélagið. Skýrslan var unnin af starfsmönnum stofunnar á Kirkjubæjarklaustri. Önnur vá sem er afleiðing af hopi jöklana eru skriðuföll. Yfirvofandi skriðuhætta er nú í Svínafellsheiði, ofan við Svínafellsjökul. Vel er fylgst með þessu af sérfræðingum Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands, en starfsfólk Náttúrustofunnar kemur einnig að því samstarfi.
Suðausturland er í heild sinni paradís fyrir fugla en samkvæmt alþjóðlegu fuglaverndarsamtökunum (e. BirdLife) er nánast allt svæðið skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Sem dæmi um mikilvægið má nefna að um 75% íslenska skúmsstofnsins verpur á söndunum sunnan jökla. Rannsóknir starfsmanna Náttúrustofunnar hafa þó sýnt að skúm hefur fækkað verulega undangengin ár og í kjölfar þeirra niðurstaðna var skúmurinn færður á válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands árið 2018. Fækkunin stafar líklegast af lélegum varpárangri sem er afleiðing breytinga í fæðuframboði, ekki hvað síst vegna hruns sandsílisstofnsins sem rakið hefur verið til loftslagsbreytinga. Nú í sumar var unnið að rannsókn um varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og verður unnið úr þeim gögnum nú á vordögum. En Suðausturland er ekki einungis höfuðvígi skúmsins heldur hefur íslenski helsingjavarpstofninn kosið að verpa nær einungis í þessum landshluta. Varpstofninn hefur vaxið hratt á undanförnum árum og Náttúrustofan hefur í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Fuglaathugunarstöð Suðausturlands fylgst grannt með því. Á næsta ári munu erlendir sérfræðingar koma til landsins til helsingjarannsókna í samstarfi við stofuna.
Varpstofnar bæði skúms og helsingja hafa tekið miklum breytingum á skömmum tíma en þeir varpstofnar eru afmarkaðir við lítil svæði og því er nokkuð auðvelt að mæla stofnstærðarbreytingar. Hins vegar er afar erfitt að mæla slíkar breytingar hjá tegundum sem verpa í úthaga um landið allt, dæmi um slíkar tegundir eru mófuglarnir okkar, til dæmis heiðlóa, hrossagaukur, tjaldur og spói. Til að meta stofnstærðarbreytingar slíkra tegunda er nauðsynlegt að beita öðrum aðferðum, t.d. með að vakta svæði þar sem fuglarnir safnast saman, oft við fæðuöflun. Við hjá Náttúrustofunni höfum verið við slíka vinnu hér umhverfis Höfn þar sem fjöldi vaðfugla á leirunum, bæði í Skarðsfirði og Hornafirði, hefur verið vaktaður frá því sumarið 2018. Reglulegar og staðlaðar mælingar yfir lengra tímabil eru besta leiðin til að greina stofnstærðarbreytingar tegunda sem dreifast yfir stór svæði. Vöktunartölur verða gefnar út árið 2020.
Ein ástæða þess hversu auðugt fuglalíf er að finna hér um slóðir eru ríkuleg votlendi og vatnasvæði. Síðastliðin tvö sumur hefur stofan skoðað fuglalíf við tjarnir í Sveitarfélaginu Hornafirði en vantað hefur upp á upplýsingar um slíkt. Hluti þeirra gagna sem safnað eru myndir af tjörnunum sem teknar voru með flygildi stofunnar. Þann 10. janúar 2020 verður opnuð sýningin Tjarnarsýn í bókasafninu á Höfn með hluta þessara mynda sem Lilja Jóhannesdóttir tók.
Samkvæmt lögum um Náttúrustofur ber okkur að fræða og miðla þekkingu. Við á Náttúrustofu Suðausturlands tökum þessu hlutverki okkar alvarlega og nýtum þau tækifæri sem okkur gefast. Í ár, sem önnur ár, höfum við hitt skólahópa bæði frá Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, en líka fengið til okkar skólahópa bæði frá Landgræðsluskóla og Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna og frá Kanadískum háskóla, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig tókum við á móti tveimur nemum í starfskynningu frá Grunnskóla Hornafjarðar.
Í sumar heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn og var ánægjulegt að fá hann og samstarfsfólk hans til okkar. Starfsmenn stofunnar áttu góðan fund með gestunum um málefni og verkefni stofunnar og að honum loknum var haldið út á Jökulsárlón þar Vatnajökulsþjóðgarður vígði fræðslustíg þar sem sjá má skilti um náttúru svæðisins. Náttúrustofa Suðausturlands vann efni á fjögur skilti og við hvetjum alla að staldra við á leið sinni um Suðausturland og skoða fræðslustíginn og umhverfið við Jökulsárlón.
Náttúrustofa Suðausturlands hefur nú verið starfrækt í sex ár hefur starfsemi hennar vaxið og dafnað. Í dag eru þrír starfsmenn á Höfn og tveir á Kirkjubæjarklaustri í hálfu starfi. Hver starfmaður á svona lítilli stofnun er mikilvægur og skiptir miklu að samspil menntunar og þekkingar starfsmanna sé gott því fjölbreyttur bakgrunnur eflir starf okkar til framtíðar. Við tökum því brosandi á móti nýju ári.