Spurningakönnun vegna vinnu við hættumat vegna Skaftárhlaupa
Í kjölfar umfangsmikils Skaftárhlaups haustið 2015 var ákveðið að vinna formlegt hættumat fyrir vatnasvið Skaftár í Skaftárhreppi. Hefur Veðurstofa Íslands, ásamt Náttúrustofu Suðausturlands, útbúið spurningakönnun þar sem kallað er eftir viðhorfum íbúa Skaftárhrepps við Skaftárhlaupum, sem skipta miklu máli varðandi það hvernig hið endanlega hættumat mun verða formað.
Markmiðið er að meta hættu af völdum Skafárhlaupa og draga saman helstu upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna viðbúnaðar við þeim svo sem varnaraðgerða til að verja land og eignir, viðbúnaðar vegna hlaupa, og skipulagsmála m.a. til að koma í veg fyrir að tjónnæmi aukist til framtíðar. Í hættumatinu verður m.a. stillt upp sviðsmyndum og útbreiðsla vatns við mismunandi flóðahæð verður sett fram á kortum, byggt á líkanareikningum. Á grundvelli slíkra sviðsmynda verða þeir staðir sem eru mest útsettir vegna flóðanna markaðir af og tillögur gerðar að mótvægisaðgerðum.
Hluti af áhættumatinu er að átta sig á viðhorfum og afstöðu heimamanna til atburðanna. Þar eru atriði eins og hvaða þættir; valda þeim áhyggjum, hafa valdið þeim skaða, hafa haft áhrif á lífsgæði þeirra en síðast en ekki síst hvers konar fyrirbyggjandi viðbúnaður og viðbrögð íbúum finnst skipta máli að séu til staðar við næstu hlaup.
Því óskum við eftir ykkar stuðningi í þessu verkefni og hvetjum alla íbúa Skaftárhrepps til að taka þátt í gerð hættumatsins með því að svara stuttri spurningakönnun á netinu. Könnunin telur 17 spurningar og tekur um 10 mínútur að svara henni.
Könnunin verður opin til og með 1. febrúar 2017 og má finna á slóðinni:
http://www.surveymonkey.com/r/Skafta