Líkan af jörðinni

„Sólin sprungin og jörðin horfin!“

Síðastliðið sumar var sett upp líkan af sólkerfinu á Höfn á vegum Náttúrustofu Suðausturlands. Það er við göngustíg sem liggur frá Óslandshæð að golfvelli. Sólin er staðsett í Óslandinu, en reikistjörnurnar raða sér svo í réttum hlutföllum hvað varðar stærð og fjarlægð, hér og þar við göngustíginn.

„Sólin“ sem sett var upp síðasta sumar var úr þunnu stáli og var kúlan fyllt með steypu, bæði til að halda henni á sínum stað og einnig til að stálið héldi lögun sinni.

Nú hefur það hins vegar komið í ljós að „sólin“ hefur ekki þolað veðrið og kuldann í vetur. Líklega hafa tveir samverkandi þættir átt hlut að máli. Steypan þanist lítið eitt út í frosti en stálið dregist einnig talsvert saman í frosti. Svo það kom sprunga á miðja kúluna og hún rifnaði í sundur.

Nú er búið að panta nýja og endurbætta kúlu sem verður sett upp í stað núverandi sólar á sama stað. Svo „sólin“ okkar verður betri en ný áður en langt um líður.

Um nýliðna helgi kom svo í ljós að einhver hefur tekið líkanið af jörðinni, annað hvort að gammni sínu eða til láns. Þetta líkan er rennd kúla á enda málmstangar og er kúlan álíka stór og baun en stöngin um 20 cm á lengd. Við skorum eindregið á þann sem tók jörðina að skila henni aftur, annað hvort í pósthólf Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum eða á sinn stað.

 

Jörðin á sínum stað við Óslandshæð sumarið 2014

Jörðin á sínum stað við Óslandshæð sumarið 2014

Sólin sprungin um miðbaug í janúar 2015

Sólin sprungin um miðbaug í janúar 2015