Skógarmítlar finnast á Höfn í Hornafirði

Nokkrir skógarmítlar hafa nú fundist á Höfn í Hornafirði. (Mynd 1 og 2). Skógarmítill er blóðsuga sem sest á ketti, hunda og menn, en talið er að þeir berist til landsins með fuglum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem skógarmítill finnst á Íslandi en hann er þó fágætur ennþá. Mynd 3 sýnir skógarmítil sem fannst á Ísafirði síðasta haust og mynd 5 sýnir hvar skógarmítlar hafa fundist á landinu. Mælt er með því að eigendur katta og hunda leiti á dýrum sínum eftir mítlum. Ef mítill finnst skal viðkomandi koma með hann til Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum eða til Björns Gísla Arnarsonar (sími 8467111). Ef mítill hefur sogið sig fastan er rétt að fara að öllu með gát þegar hann er fjarlægður. Það er best gert með því að klemma pinsettuodda um munnhluta mítilsins og lyfta honum beint upp frá húðinni (mynd 4). Forðast skal að snúa honum í sárinu.

Skógarmítill heldur sig í gróðri, einkum á skógarbotni en dýrin í skóginum, spendýr og fuglar sjá mítlinum fyrir blóði. Þegar hann vantar blóð krækir hann sig á fórnarlambið sem á leið um skóginn. Á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að þar sem skógarmítill er landlægur er fólk vant því að leita að honum á líkama sínum eftir dvöl í skógi eða graslendi. Ef hann er tekinn af húðinni innan við sólarhring eftir að hann nær að festa sig er hann talinn hættulaus þar sem bakterían sem veldur Lyme-sjúkdómi í mönnum kemst ekki í blóðrás hýsilsins nema mítillinn sjúgi blóð mjög lengi.

Skógarmítill hefur borist til Íslands með farfuglum en einnig eru dæmi um að hann hafi borist með fólki frá útlöndum og jafnvel hundum ef eftirlit hefur ekki verið nægjanlegt. Á Íslandi hefur hann einkum fundist á mönnum og hundum, t.d. eftir útivist í skógum en einnig fuglum, sauðfé og hreindýrum.
Ungviðið sem er um 1 mm á lengd heldur sig í gróðri, en þegar það vantar blóð krækir sig við blóðgjafa á leið um. Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru að mestu ókannaðir. Skógarmítill er varasamur því hann getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín, t.d. bakteríuna Borrelia burgdorferi, sem getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi.

Upplýsingarnar eru fengnar af heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands. http://www.ni.is/animalia/arthropoda/chelicherata/arachnida/acari/ixodida/ixodidae/ixodes/ixodes_ricinus og af heimasíðu landlæknis http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12471/Skogarmitill-(Borreliosa—Lyme-sjukdomur).

 

Skógarmítill neðan við auga á þúfutittlingi í Einarslundi. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Mynd 1.  Skógarmítill neðan við auga á þúfutittlingi í Einarslundi 8. maí 2016. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Skógarmítill við munnvikið á skógarþresti í Einarslundi. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Mynd 2. Skógarmítill við munnvikið á skógarþresti í Einarslundi 8. maí 2016. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

 

Skógarmítill-Ísafirði-2015

Mynd 3. Skógarmítill sem fannst á Ísafirði haustið 2015, um 6 mm langur.

Skógarmítill-tekinn-af

Mynd 4. Leiðbeiningarmynd sem sýnir hvernig taka á skógarmítil af húð með pinsettu.

 

Kort-af-skógarmítlum-2016

Mynd 5. Fundarstaðir skógarmítils. Kort tekið af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands 2016.

 

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save