Septemberúrkoma á Höfn 2016
Úrkoma á Höfn síðastliðin september mældist í heildina 245,2 mm. Það er um 230% af 30 ára meðal mánaðarúrkomu áranna 1961-1990. Ef skoðuð er mánaðarúrkoma septembermánaða síðustu 50 ára á Höfn, í Akurnesi og í Hjarðarnesi, lendir þessi nýliðni september í fjórða sæti, hvað varðar úrkomumet.
Mesta úrkoma á þessum stöðvum í september mældist árið 2008 á Höfn, 294,4 mm. Árið 1999 mældust 288,3 mm í Akurnesi og 260,2 mm á Höfn árið 2011.
Í nýliðnum september voru einungis 7 sólarhringar úrkomulausir og mesta sólarhringsúrkoma mældist þann 22. september, 40,2 mm. Á súluritinu hér fyrir neðan má sjá úrkomuna sem mældist hvern sólarhring fyrir sig.
Veðurstofa Íslands tekur saman yfirlit yfir ýmsa veðurþætti í hverjum mánuði á nokkrum stöðvum á landinu. Þar og í viðbótarskjölum sem vísað er í neðst á síðunni má sjá að meðalhitinn á Höfn var 9,4 °C í september. Það er 1,7°C hlýrra en meðaltalið 1961-1990 og 0,7°C hlýrra en meðaltalið 2006-2015. Einnig kemur fram að meðalvindhraðinn var 5,2 m/s í september, en óvenju hægviðrasamt var á öllu landinu.
Nánari upplýsingar um veðurfar víða á landinu má lesa á vefnum vedur.is.