Óvissuferð
Föstudaginn 1. nóvember var haldin ráðstefna á Hótel Höfn á vegum Ríkis Vatnajökuls sem nefnd var „Tilvist og tækifæri“. Þegar ráðstefnunni lauk tók við óvissuferð sem var í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands.
Ferðin hófst í Óslandi þar sem kynnt var hugmynd að sólkerfislíkani sem Náttúrustofa Suðausturlands hyggst koma upp. Í því er gert ráð fyrir að sólin sé staðsett á hæsta punkti í Óslandi en reikistjörnurnar verða í réttum stærðar og fjarlægðarhlutföllum meðfram göngustíg sem liggur vestanmegin við Höfn, alla leið að Silfurnesgolfvelli. Frá Sólinni var gengið að Merkúríus, Venus, Jörðinni, Mars, smástirninu Ceres, Júpiter og Satúrnus en bent var á hvar Úranus og Neptúnus yrðu staðsettar. Staldrað var við hverja reikistjörnu og viðstaddir fræddir um þær. Þar sem vindurinn var hvass og kalt í veðri, voru stoppin ekki löng á hverjum stað. Að síðustu var stoppað á Leiðarhöfða þar sem ánægjulegri en vindasamri óvissuferð lauk.