Náttúrustofa Suðausturlands- Horft um öxl í árslok
Eystrahorn birtir í jólablaði sínu árið 2016 viðtal við Kristínu Hermannsdóttur, forstöðumann Náttúrustofu Suðausturlands.
Hér er greinin birt ásamt nokkrum myndum sem ekki komust í blaðið:
Náttúrustofa Suðausturlands var stofnuð árið 2013 og eru höfuðstöðvar hennar á Höfn í Hornafirði. Þar starfa þau Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur og forstöðumaður stofnunarinnar og Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur. Blaðamaður Eystrahorns tók Kristínu tali um hvað borið hefði á daga Náttúrustofu árið 2016.
„Við færðum örlítið út kvíarnar í ár“ segir Kristín „því að nýr starfsmaður tók til starfa á Kirkjubæjarklaustri í sumar. Sú heitir Rannveig Ólafsdóttir og er náttúru- og umhverfisfræðingur að mennt. Það hefur lengi staðið til að fá starfsmann á Klaustri því Skaftárhreppur er aðili að Náttúrustofu Suðausturlands, ásamt Sveitarfélaginu Hornafirði með stuðningi ríkisins. Hennar starf er að mestu tengt málefnum jökulvatna í Skaftárhreppi.“
Síðan stofan var sett á laggirnar hafa fjölbreytileg verkefni mætt starfsfólki, eiginlega allt á milli himins og jarðar og var starfsárið 2016 engin undantekning. Flest snúast þau um náttúrufar á Suðausturlandi en með starfsmann á Klaustri mun þeim einnig fjölga í Skaftárhreppi á næstu árum.
„Það sem kemur kannski fyrst í huga eru verkefnin sem snúa að ánni Míganda og tillögur að áningastöðum við hringveginn hér í sýslunni“, segir Kristín. „Mígandi rennur í Skarðsfjörð og var gerð rannsókn á lífríkinu við og í ánni sumarið 2015. Sögusagnir voru um að farveginum hefði verið breytt fyrir fjölmörgum áratugum og upp komu spurningar um hverjar afleiðingarnar yrðu við endurheimt. Þetta mál hefur reyndar tekið á sig ýmsar hliðar og líklega var áin aldrei færð, en flóðavarnir settar nærri fossinum í Bergá. Okkur þótti mikilvægt að rannsaka lífríkið á áhrifasvæði árinnar til að hafa samanburð ef breytingar yrðu í farvegi árinnar og voru niðurstöðurnar gefnar út í skýrslu nú í vor.“
„Aukinn ferðamannastraumur hefur sett mark sitt á umferðina á Suðausturlandi, eins og allir vita. Ásamt nokkrum fagaðilum lukum við einnig við tillögur að áningastöðum á leiðinni á milli Skeiðarársands austur að Streiti, milli Berufjarðar og Breiðdalsvíkur. Þessar tillögur gáfum við einnig út í skýrslu.“
„Annars eru fjölmörg verkefni sem við sinnum hvert ár og þau taka oft talsverðan tíma“, útskýrir Kristín. „Við sinnum t.d. jöklamælingum á eiginlega flestum jöklum í sýslunni, austan Öræfajökuls. Sumar þessara mælinga eru nýttar í samstarfi við Jöklarannsóknafélagið en aðrar eru hluti verkefna sem við sinnum í eigin þágu. Ég get nefnt grein sem birtist í vísindatímaritinu Jökli, um hlaup sem átti sér stað í Gjávatni haustið 2015 en að öllum líkindum hjálpuðu miklar úrkomur því að það hljóp af stað. Nú er í vinnslu grein um Esjufjallarönd sem við vonumst til að verði birt á næstu misserum. Þetta er þó aðeins brot af því efni sem varðar jöklana á Suðausturlandi og eru í vinnslu.“
Til að auðvelda mælingar á hopandi jöklum, einkum þeim sem hafa lón framan við sporðana, keyptu náttúrustofan og FAS saman dróna í haust. Hann hefur þegar verið notaður þessu tengt en ásamt kennurum og nemendum FAS var hann með í mælingaferð að Heinabergsjökli. Verkefni Náttúrustofu eru þó fleiri en hvað viðkemur jöklum. Kristín segir að síðasta sumar hafi verið gerð mæling á uppskerutapi vegna ágangs gæsa í ræktarlönd bænda, þriðja árið í röð, en skýrsla um verkefnið er í vinnslu. Kristín nefnir einnig vöktun á fiðrildum og fuglatalningar sem eru unnar í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. „Þessum athugunum er mikilvægt að viðhalda, hér er mikilvægur viðkomustaður farfugla og hér eru menn sem hafa mikla þekkingu á fuglum.“
Efni sem Náttúrustofan gefur út er hægt að nálgast hér: https://nattsa.is/utgefid-efni/