Fláajökull og nokkrir nemendur FAS í mælingaferð að jöklinum. Talsvert samstarf er milli náttúrustofu og FAS vegna náttúrfræðikennslu og rannsókna.

Náttúrustofa Suðausturlands- Horft um öxl í árslok

Eystrahorn birtir í jólablaði sínu árið 2016 viðtal við Kristínu Hermannsdóttur, forstöðumann Náttúrustofu Suðausturlands.

Hér er greinin birt ásamt nokkrum myndum sem ekki komust í blaðið:

Náttúrustofa Suðausturlands var stofnuð árið 2013 og eru höfuðstöðvar hennar á Höfn í Hornafirði. Þar starfa þau Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur og forstöðumaður stofnunarinnar og Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur. Blaðamaður Eystrahorns tók Kristínu tali um hvað borið hefði á daga Náttúrustofu árið 2016.

„Við færðum örlítið út kvíarnar í ár“ segir Kristín „því að nýr starfsmaður tók til starfa á Kirkjubæjarklaustri í sumar. Sú heitir Rannveig Ólafsdóttir og er náttúru- og umhverfisfræðingur að mennt. Það hefur lengi staðið til að fá starfsmann á Klaustri því Skaftárhreppur er aðili að Náttúrustofu Suðausturlands, ásamt Sveitarfélaginu Hornafirði með stuðningi ríkisins. Hennar starf er að mestu tengt málefnum jökulvatna í Skaftárhreppi.“

Síðan stofan var sett á laggirnar hafa fjölbreytileg verkefni mætt starfsfólki, eiginlega allt á milli himins og jarðar og var starfsárið 2016 engin undantekning. Flest snúast þau um náttúrufar á Suðausturlandi en með starfsmann á Klaustri mun þeim einnig fjölga í Skaftárhreppi á næstu árum.

„Það sem kemur kannski fyrst í huga eru verkefnin sem snúa að ánni Míganda og tillögur að áningastöðum við hringveginn hér í sýslunni“, segir Kristín. „Mígandi rennur í Skarðsfjörð og var gerð rannsókn á lífríkinu við og í ánni sumarið 2015. Sögusagnir voru um að farveginum hefði verið breytt fyrir fjölmörgum áratugum og upp komu spurningar um hverjar afleiðingarnar yrðu við endurheimt. Þetta mál hefur reyndar tekið á sig ýmsar hliðar og líklega var áin aldrei færð, en flóðavarnir settar nærri fossinum í Bergá. Okkur þótti mikilvægt að rannsaka lífríkið á áhrifasvæði árinnar til að hafa samanburð ef breytingar yrðu í farvegi árinnar og voru niðurstöðurnar gefnar út í skýrslu nú í vor.“

„Aukinn ferðamannastraumur hefur sett mark sitt á umferðina á Suðausturlandi, eins og allir vita. Ásamt nokkrum fagaðilum lukum við einnig við tillögur að áningastöðum á leiðinni á milli Skeiðarársands austur að Streiti, milli Berufjarðar og Breiðdalsvíkur. Þessar tillögur gáfum við einnig út í skýrslu.“

„Annars eru fjölmörg verkefni sem við sinnum hvert ár og þau taka oft talsverðan tíma“, útskýrir Kristín. „Við sinnum t.d. jöklamælingum á eiginlega flestum jöklum í sýslunni, austan Öræfajökuls. Sumar þessara mælinga eru nýttar í samstarfi við Jöklarannsóknafélagið en aðrar eru hluti verkefna sem við sinnum í eigin þágu. Ég get nefnt grein sem birtist í vísindatímaritinu Jökli, um hlaup sem átti sér stað í Gjávatni haustið 2015 en að öllum líkindum hjálpuðu miklar úrkomur því að það hljóp af stað. Nú er í vinnslu grein um Esjufjallarönd sem við vonumst til að verði birt á næstu misserum. Þetta er þó aðeins brot af því efni sem varðar jöklana á Suðausturlandi og eru í vinnslu.“

Til að auðvelda mælingar á hopandi jöklum, einkum þeim sem hafa lón framan við sporðana, keyptu náttúrustofan og FAS saman dróna í haust. Hann hefur þegar verið notaður þessu tengt en ásamt kennurum og nemendum FAS var hann með í mælingaferð að Heinabergsjökli. Verkefni Náttúrustofu eru þó fleiri en hvað viðkemur jöklum. Kristín segir að síðasta sumar hafi verið gerð mæling á uppskerutapi vegna ágangs gæsa í ræktarlönd bænda, þriðja árið í röð, en skýrsla um verkefnið er í vinnslu. Kristín nefnir einnig vöktun á fiðrildum og fuglatalningar sem eru unnar í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. „Þessum athugunum er mikilvægt að viðhalda, hér er mikilvægur viðkomustaður farfugla og hér eru menn sem hafa mikla þekkingu á fuglum.“

Efni sem Náttúrustofan gefur út er hægt að nálgast hér: https://nattsa.is/utgefid-efni/

2016-07-06-fidrildagildra

Fiðrildagildra. Á vegum Náttúrustofu Suðausturlands eru þrjár gildrur, tvær í Einarslundi og ein í Mörtungu við Kirkjubæjarklaustur.

20160509_snaevarr-vid-kiki

Snævarr Guðmundsson með stjörnukíki utanvið Nýheima þegar Merkúríus gekk fyrir sólu 9. mai. Þegar öllu hafði verið stillt upp dróg ský fyrir sólu og ekki reyndist mögulegt að fylgjast með þvergöngunni.

20160523_steinn-ur-hoffelli

Steinn frá Hoffelli komin að náttúrustígnum nærri Nýheimum, en þar verður jarðfræði svæðisins kynnt með mismunandi bergtegundum.

20160419_bur-a-tuni

Búr á túni á Suðausturlandi. Þau voru notuð við rannsókn á uppskerutapi vegna ágangs gæsa á ræktarlönd.