Helsingjamerkingar 2020 – staðsetningarbúnaður settur á helsingja í fyrsta sinn

Dagana 13.-15. júlí tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, en verkefninu er stýrt af Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi hjá Verkís.

Þetta var fjórða sumarið í röð þar sem helsingjar eru merktir á Breiðamerkursandi en í ár voru í fyrsta skipti settir sendar á nokkra fugla sem gerir kleift að fylgjast nákvæmlega með ferðum þeirra. Settir voru GSM/GPS-sendar á fimm helsingja, einn á Álftaversafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu (gassinn Guðmundur) og fjóra á Breiðamerkursandi í Austur-Skaftafellssýslu (þrjár gæsir: Eivör, Guðrún og Stefanía og einn gassi: Sæmundur). Sendarnir notast við símkerfi og berast upplýsingar um staðsetningu fuglanna tvisvar sinnum á sólarhring og veita því ítarlegar upplýsingar um ferðir þeirra. Slíkar upplýsingar eru því afar dýrmætar til að skilja betur lífshætti helsingja. Sendarnir eru nokkuð dýrir og nauðsynlegt að leita styrkja til að fjármagna sérstaklega slíkar rannsóknir. Náttúrustofan aðstoðaði við safna styrkjum og fékk styrk fyrir tveimur sendum, annan frá Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu og hinn frá Sveitarfélaginu Hornafirði. Við hjá stofunni, sem og allir sem koma að merkingunum, kunnum þeim hinar bestu þakkir fyrir. Allir sem styrkja sendi fá að velja nafn fuglsins og völdu Búnaðarsamtökin nafnið Eivör og Sveitarfélagið valdi nafnið Sæmundur (sjá myndir).

Alls voru merktir um 370 helsingjar í ár. Hver fugl sem næst fær lítið stálmerki á vinstri fót með nokkurs konar kennitölu, en fullorðnir fuglar fengu einnig litmerki á hægri fót og voru merki ársins í ár gul með tveimur svörtum bókstöfum. Það sem einkennir litmerki sem sett eru á helsingja merkta á Íslandi frá helsingjum merktum annars staða er óbrotin lína sem aðgreinir stafina tvo. Við hvetjum fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is.

Vatnajökulsþjóðgarður lagði til starfsfólk og einnig komu sjálfboðar til merkinganna og fá allir þessir aðilar kærar þakkir fyrir vel unnið verk.

Kristín Hermannsdóttir, forstöðukona Náttúrustofu Suðausturlands, með helsingja sem fékk GPS senditæki sem styrkt var af Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu en þau völdu nafnið Eivör fyrir þessa glæsilegu gæs. Litmerki hennar er gult með áletruninni SF. Nafn gæsarinnar til vinstri er óþekkt. Mynd: Lilja Jóhannesdóttir.
Sæmundur Helgason með Sæmund í sparifötunum, en sendir á þennan helsingja var styrktur af Sveitarfélaginu Hornafirði. Litmerki hans er gult með áletruninni SH. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.
Hrafnhildur Ævarsdóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli með helsingja sem fékk GPS senditæki og nafnið Guðrún. Litmerki hennar er gult með áletruninni HA. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.
Einn helsingjahópur kominn í “réttina” og bíða þar eftir að verða merktir. Hlynur Þráinn Sigurjónsson, Sandra Rós Karlsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir gæta fuglanna. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.
Einn helsingjahópur kominn í “réttina” og bíða þar eftir að verða merktir. Hlynur Þráinn Sigurjónsson, Sandra Rós Karlsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir gæta fuglanna. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.