Gulygla sem kom í gildru í Einarslundi við Höfn. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 24. september 2018.

Fiðrildavöktun lokið 2018

Í gær, 12. nóvember 2018 var síðasta tæming þetta árið á þremur fiðrildagildrum sem eru í umsjá Náttúrustofu Suðausturlands í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Umsjón með gildrunum er í höndum Björn Gísla Arnarsonar og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands. Þetta árið hafa verið þrjár gildrur á Suðausturlandi. Tvær í Einarslundi við Hornafjörð og ein í garðinum við Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 16. apríl var kveikt á þeim og hafa þær því logað í 30 vikur og safnað rannsóknargögnum.

Mismikið kemur í gildrurnar í hverri viku, en mest er um fiðrildi og mölflugur síðari hluta júlímánaðar, í ágúst og fram í september. Samantekt um öll fiðrildin verður unnin síðar, þegar öll gögn hafa verið greind.

Við tæmingu í september var ein gulygla í hvorri gildru í Einarslundi.  Gulygla (Noctua pronuba) er landlæg hér á landi og hefur henni farið fjölgandi í kjölfar hlýnandi loftslags á seinni árum. Þó eru af henni áraskipti. Auk þess er nokkuð ljóst að hún berst til landsins með vindum á haustin eins og fleiri tegundir fiðrilda. Það ber ekki mikið á henni því hún hefur hægt um sig í dagsbirtu en fer á flug er skyggir. Þá flýgur hún gjarnan á ljós og berst stundum inn um glugga þar sem ljós logar fyrir innan.

Gulygla er með stærstu fiðrildum og þar með stærstu skordýrum hér á landi. Hún er auðþekkt á stærðinni og sterkgulum afturvængjum sem hafa dökkt belti með afturjaðri. Þegar fiðrildið situr með aðfellda vængi hverfa einkennandi afturvængirnir alveg undir framvængina sem eru breytilegir á lit.

Heimild:

https://www.ni.is/biota/animalia/arthropoda/hexapoda/insecta/lepidoptera/noctuidae/gulygla-noctua-pronuba

Björn Gísli Arnarson að tendra aðra gildruna á Höfn 16. apríl 2018. Mynd; Kristín Hermannsdóttir.

Björn Gísli Arnarson að tendra aðra gildruna á Höfn 16. apríl 2018. Mynd; Kristín Hermannsdóttir.

 

Gulygla sem kom í gildru í Einarslundi við Höfn. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 24. september 2018.

Gulygla sem kom í gildru í Einarslundi við Höfn. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 24. september 2018.

 

Björn Gísli Arnason og Erling Ólafsson greina og telja fiðrildi haustið 2018. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 28. október 2018

Björn Gísli Arnason og Erling Ólafsson greina og telja fiðrildi haustið 2018. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 28. október 2018