Fiðrildavöktun árið 2016 á Suðausturlandi
Sumarið 2016 voru settar upp þrjár fiðrildagildrur á vegum Náttúrustofu Suðausturlands í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Tvær gildrur í Einarslundi við Hornafjörð á tveimur ólíkum stöðum í lundinum og ein í garðinum við Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 15. apríl var kveikt á gildrunum og loguðu þær langt út í nóvember. Fyrstu fiðrildin veiddust á Höfn um miðjan mai, en flest fiðrildi voru í þeim við vitjun í lok ágúst, 274 stykki í annarri gildrunni og 346 stykki í hinni (gildru-2). Umsjón með gildrunum er í höndum Björn Gísla Arnarsonar og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands.
Fyrstu fiðrildin í Mörtungu komu í gilduna í lok apríl og flestu fiðrildin voru í henni við vitjun um miðjan ágúst, 423 stykki. Umsjón með gildrunni er í höndum Rannveigar Ólafsdóttur.
Mynd 1 sýnir fjölda veiddra fiðrilda í hverri viku sumarið 2016. Flest þeirra komu í gildrurnar um miðbik og síðari hluta ágúst, en mjög fá veiddust eftir lok september.
Á mynd 2 má sjá þær tíu tegundir sem algengastar voru í gildrunum sumarið 2016 og hlutfall þeirra af heildinni á hverjum stað. Í allt komu 36 tegundir í gildrurnar og heildarfjöldinn sem gildrurnar fönguðu yfir sumarið var 5817 fiðrildi og komu 39% þeirra í gildru-2 á Höfn, sem er umtalsverð breyting frá árinu á undan, þegar 59% þess sem kom í gildrurnar náðist í Mörtungu. Fjöldi veiddra fiðrilda á milli ára hélst nokkuð stöðugur á Höfn, en í Mörtungu fækkaði eintökum um helming á milli ára.
Þegar gögnin frá þessum þremur gildrum eru skoðuð er áhugavert að sjá að gildra nr. 2 á Höfn, í Einarslundi gefur heldur meiri fjölbreytni en sú nr. 1. Og umtalsvert færri tegundir fundust í Mörtungu þetta árið, en árið á undan.
Á síðustu árum hafa allt í allt veiðst 45 tegundir fiðrilda á Höfn, en 38 tegundir í Mörtungu.
Nokkrir flækingar bárust til stofunnar á árinu, þar af einn hauskúpusvarmi sem fannst á Hnappavöllum síðla sumars. (sjá mynd 7).
Ef einstaka flækingstegundir eru skoðaðar má sjá að kálmölur kom oftast í allar gildrurnar á SA-landi sumarið 2016, eða 50 stykki í allt (mynd 5). Eins komu 21 gammaygla í gildrurnar, en það er algengasta flækingstegundin hér á landi (mynd 6). Tvær yglur komu í gildruna í Mörtungu, en á Höfn komu fimm í aðra gildruna og fjórtán yglur í hina gildruna. Fyrsta gammayglan fannst 1. júlí í Mörtungu og síðasta yglan var í gildru-2 á Höfn 28. október.