Fiðrildavöktun 2018 á Suðausturlandi
Sumarið 2018 voru þrjár fiðrildagildrur í gangi á vegum Náttúrustofu Suðausturlands í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Tvær gildrur í Einarslundi við Hornafjörð og ein í garðinum við Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 17. apríl var kveikt á gildrunum og loguðu þær til 12. nóvember, en ljós þeirra dregur til sín fiðrildi að næturlagi. Fyrstu fiðrildin veiddust á Höfn um miðjan maí, en flest fiðrildi voru í þeim í lok ágúst. Umsjón með gildrunum er í höndum Björn Gísla Arnarsonar starfsmanns Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands. Fyrstu fiðrildin í Mörtungu komu í gildruna í byrjun júní en flest fiðrildi voru í henni um miðjan ágúst. Umsjón með gildrunni er í höndum Rannveigar Ólafsdóttur fyrrverandi starfsmanns Náttúrustofu Suðausturlands. Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með greiningu á tegundum ásamt Birni Gísla Arnarsyni.
Sumarið 2018 komu flest fiðrildi í gildrurnar um miðbik og síðari hluta ágúst, en mjög fá veiddust eftir miðjan september (mynd 1).
Mynd 2 sýnir þær tíu tegundir sem algengastar voru í gildrunum sumarið 2018 og hlutfall þeirra af heildinni á hverjum stað. Alls komu 59 tegundir í gildrurnar og heildarfjöldi í gildrunum yfir sumarið var 5757 fiðrildi, 42% kom í gildru 2 á Höfn, 32% í gildru 1 á Höfn og 24% í Mörtungu. Fjöldi fiðrilda í gildrunum jókst heldur á milli ára á Höfn, en í Mörtungu fækkaði þeim umtalsvert á milli ára. Algengasta tegundin í Mörtungu er grasvefari, en tígulvefari í báðum gildrum á Höfn (myndir 3 og 4). Fjöldi grasvefara og jarðyglu í Mörtungu sker sig úr samanborið við gildrurnar á Höfn.
Þegar gögnin frá þessum þremur gildrum eru skoðuð má sjá að í gildru nr. 2 á Höfn, í Einarslundi er meiri fjölbreytni en sú nr. 1. Er það líklegast vegna mismunandi gróðurs nærri gildrunum. Eins eru talsvert fleiri tegundir fundust í Mörtungu þetta árið, en árið á undan (30 á móti 23).
Nokkrir flækingar komu í gildrurnar á árinu. Algengasti flækingurinn er kálmölur (mynd 5) sem veiddist í allar gildrur á SA-landi sumarið 2018, 30 stykki í allt. Eins komu 23 netluyglur (mynd 6) í gildrurnar, tíu í gildruna í Mörtungu, en á Höfn komu fimm í aðra gildruna og átta yglur í hina gildruna. Að auki sáust nokkrar gullglyrnur á Suðausturlandi síðla sumar, en enduðu ekki í gildrunum (mynd 7).