Fiðrildavöktun 2015 á Suðausturlandi
Sumarið 2015 voru settar upp þrjár fiðrildagildrur á vegum Náttúrustofu Suðausturlands í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Tvær gildrur í Einarslundi við Hornafjörð á tveimur ólíkum stöðum í lundinum og ein í garðinum við Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 16. apríl var kveikt á gildrunum og loguðu þær langt út í nóvember.
Fyrstu fiðrildin viddust á Höfn strax í fyrstu vikunni, en flest fiðrildi voru í þeim við vitjun í lok ágúst, 254 stykki í annarri gildrunni og 235 stykki í hinni. Umsjón með gildrunum er í höndum Björn Gísla Arnarsonar og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands. (Sjá myndir 6 og 7).
Fyrstu fiðrildin í Mörtungu komu í gilduna í byrjun júní og flestu fiðrildin voru í henni við vitjun í lok ágúst, 1311 stykki. Umsjón með gildrunni er í höndum Rannveigar Ólafsdóttur. (Sjá mynd 8).
Mynd 1 sýnir fjölda veiddra fiðrilda í hverri viku sumarið 2015. Flest þeirra komu í gildrurnar í lok ágúst, en mjög fá veiddust eftir lok september.
Á mynd 2 má sjá þær ellefu tegundir sem algengastar voru í gildrunum sumarið 2015 og hlutfall þeirra af heildinni á hverjum stað. Í allt komu 36 tegundir í gildrurnar og heildarfjöldinn sem gildrurnar fönguðu yfir sumarið var 7367 fiðrildi og komu 59% þeirra í gildruna í Mörtungu.
Þegar gögnin frá þessum þremur gildrum eru skoðuð er áhugavert að sjá að gildra nr. 2 á Höfn, í Einarslundi gefur meiri fjölbreytni en sú nr. 1. Einnig er fjölbreyttni tegunda í Mörtungu óvenjuleg, en tvær tæmingar á gildrunni sýndu 20 tegundir sem er frekar óvenjulegt miðað við aðra staði á landinu.
Sunnudaginn 30. ágúst 2015 sást og náðist fiðrildi af tegundinni kóngasvarmi í Skaftafelli. Finnandi var Valdís Kjartansdóttir og kom hún með hann til Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn (sjá mynd 3). Samkvæmt upplýsingum frá Erling Ólafssyni á Náttúrufræðistofnun Íslands var þetta sjöundi kóngasvarminn sem finnst hér á landi sumarið 2015, en sá fyrsti fannst vestur í Dölum 25. ágúst.
Ef einstaka flækingstegundir eru skoðaðar má sjá að gammaygla (eins og sú sem settist á andlit Ronaldo í París 2016) kom í allar gildrurnar á SA-landi sumarið 2015. Er gammayglan algengasta flækingstegundin hér á landi (mynd 9.). Fjórar yglur komu í gildruna í Mörtungu og var sú fyrsta þar í tæmingu á gildrunni 27. júlí. Á Höfn komu 5 í aðra gildruna og 10 í hina. Fyrstu gammayglurnar þar voru í tæmingu 27. ágúst og síðasta yglan var í gildru á Höfn 5. nóvember.