Breiðamerkursandur – Mat á náttúru, menningarminjum og innviðum
Árið 2023 lögðu Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur lokahönd á mat á náttúru, menningarminjum og innviðum á Breiðamerkursandi fyrir Vatnajökulþjóðgarð. Að verkefninu komu einnig Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Hornafirði, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Efla og Náttúrustofa Austurlands.
Verkefnið var unnið vegna Vörðu, samstarfsverkefnis atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- orku- og Loftslagsráðuneytisins. Varða miðar að heildstæðri nálgun í stjórnun áfangastaða og var Breiðamerkursandur var einn þeirra fjögurra staða sem valdir voru í prufuferli Vörðu. Markmið verkefnisins er þríþætt;
- Meta núverandi ástand helstu álagssvæða á Breiðamerkursandi.
- Greina mögulegar aðgerðir til að tryggja stöðugleika og jákvæða framvindu svæðisins.
- Leggja fram tillögur vegna vöktunar og mats.
Auk þessara markmiða var verkefninu ætlað að meta umfang atvinnutengdar starfsemi á Breiðamerkursandi. Skýrsluna í heild sinni má lesa hér en ágrip hennar er hér að neðan.
Ágrip
Árið 2021 var Jökulsárlón á Breiðamerkursandi tekið inn í prufuferli Vörðu sem miðar að heildstæðri nálgun í stjórnun áfangastaða svo þeir geti talist fyrirmyndaráfangastaðir. Vörður eiga að uppfylla ákveðin skilyrði og teljast merkisstaðir, einstakir á lands- eða heimsvísu. Markmið heildstæðrar áfangastaðastjórnunar Vörðu eru meðal annars verndun náttúru, menningarminja og landslagsheildar. Þegar Breiðamerkursandur var tekinn inn í Vatnajökulsþjóðgarð árið 2017 var á svæðinu talsvert álag vegna síaukins fjölda ferðamanna en lítil stýring var til staðar. Talsverðar væntingar voru því um að regluverk og stýring á vegum þjóðgarðsins myndi leiða til betra ástands. Á síðari árum hefur umferð ferðafólks um Breiðamerkursand stóraukist, Jökulsárlón er meðal fjölsóttustu áfangastaða landsins og er ásókn í íshella og jöklagöngur mikil. Þessi mikli fjöldi ferðamanna hefur gert stýringu vandasama og gerir þjóðgarðinum erfitt fyrir að uppfylla stefnu sína um verndun, upplifun, sköpun og stjórnun. Markmið þjóðgarðsins eru leiðarljós hans og eru samkvæmt lögum (nr. 60/2007) eftirfarandi:
- Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar.
- Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.
- Stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins.
- Leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.
Niðurstöður greininga á náttúru, menningarminjum og innviðum, með tilliti til álags vegna ferðafólks, benda til þess að ekki náist að uppfylla öll þessi markmið á Breiðamerkursandi með jöfnum hætti. Svo að Jökulsárlón, og Breiðamerkursandur sem heild, geti talist til fyrirmyndaráfangastaða, er ýmissa úrbóta þörf.
Jarðmyndanir
Mikilvægi jarðmyndana á Breiðamerkursandi er á heimsvísu en óvíða er að finna jafn aðgengileg svæði með öllum auðkennum landmótunar jökla. Yfirborð Breiðamerkursands flokkast að mestu sem jökulruðningur og framburðarset og hægt er að draga upp nokkur meginbelti þvert á sandinn: strandbelti, jökuláraurar, ystu jökulgarðar/endagarður, jökulaurar innan endagarðsins, að jökulsporði og að lokum er frárennsliskerfi jöklanna sem liggur í gegnum þessi belti. Í stjórnunar og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs (2022) segir: „Að tryggja verndun samfelldra, heildstæðra og fágætra jarðmyndana og stýra umferð um þær. Friðun jarðmyndana, til dæmis þeirra sem njóta sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum, er ekki næg ein og sér. Til viðbótar þarf gott skipulag og fræðslu því að margar þessara jarðmyndana, sem draga að sér mikinn fjölda gesta, eru mjög viðkvæmar fyrir umferð manna um þær.“ Ásamt því er getið að: „Vatnajökulsþjóðgarður mun meta áhrif umferðar á mikilvægar jarðmyndanir í þjóðgarðinum og grípa til sérstakra verndarráðstafana þar sem þess er þörf.“ Niðurstöður um jarðmyndanir sýna að á álagssvæðum hefur orðið hnignun vegna traðks og víða þarf úrbætur. Helsta ógn jarðmyndana á svæðinu er utanvegaakstur og því þarf markvisst að sporna gegn honum.
Lífríki
Lífríki á Breiðamerkursandi er um margt einstakt og mótað af þeim miklu jökuláhrifum sem þar hefur gætt. Á sandinum eru fjölbreytt svæði með viðkvæmu og sérstöku lífríki. Þar má finna búsvæði sjaldgæfra tegunda sem mikilvægt er að vernda, einkum þeirra sem eru á válista. Brýnt er að fylgjast með útbreiðslu og viðgangi mikilvægra tegunda sem Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á. Á grunni kortlagningar slíkra tegunda og búsvæða þeirra þarf að stýra umferð og öðru álagi sem kann að stofna viðgangi þessara tegunda í hættu. Samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs skal tryggja verndun svæða með fjölbreytt, viðkvæmt og sérstakt lífríki.
Ríkjandi vistgerðir vitna um hæga gróðurframvindu og jarðvegsmyndun. Gróðurþekjan er yfirleitt lausborin og því þarf ekki mikið álag til þess að valda raski. Á álagsstöðum ber gróður og jarðvegur merki um rask eða eyðingu, m.a. meðfram ógirtum gönguslóðum. Afgirtir gönguslóðar með böndum virðast duga til að minnka rask vegna álags og því ljóst að tiltölulega einfaldar aðgerðir geta bjargað miklu.
Breiðamerkursandur er skilgreindur sem mikilvægt fuglasvæði fyrir fjórar lykiltegundir: lóm, grágæs, helsingja og skúm. Skúm hefur fækkað hratt undanfarið og er nú á válista skráður í bráðri hættu. Því er afar mikilvægt að engin starfsemi fari fram á varpsvæðum hans. Auk lykiltegundanna finnst nokkur fjöldi annarra fuglategunda sem margar standa höllum fæti, til dæmis kría og kjói. Ljóst er að varplendi fugla og annasamir ferðamannastaðir eiga illa saman. Það sama á við um landspendýrin, seli, refi og hreindýr. Landselir eiga látur á Breiðamerkursandi og mikilvægt að þau séu friðuð fyrir umferð. Lífríki í vötnum á Breiðamerkursandi hefur lítið verið rannsakað og er vöntun rannsókna til dæmis gerð að umfjöllunarefni í stjórnunar- og verndaráætlun. Í kafla um vatnalífríki kemur meðal annars fram að aðstæður til lífauðgi eru töluverðar í fjölda tjarna sem tengjast saman af lækjum og í þeim hafa mögulega myndast óvenjuleg vistkerfi. Algengustu gerðir vatna eru jökulvötn, kransþörungavötn og laukavötn og dreifast þær niður eftir beltaskiptingu jarðmyndana á Breiðamerkursandi. Mikilvægt er að taka tillit til lífríkis, í öllum formum, við skipulag og stýringu.
Landslag og víðerni
Landslag á Breiðamerkursandi hefur ákveðna sérstöðu, ekki aðeins í íslensku samhengi heldur einnig á heimsvísu. Landslagsheild svæðisins er sterk með svipmót markað af miklum andstæðum og hreyfanleika. Landslagsáhersla kemur skýrt fram í verndarmarkmiði Vatnajökulsþjóðgarðs og í Vörðu.
Víðerni eru auðlind sem verður sífellt fágætari í heiminum. Vatnajökulsþjóðgarður er auðugur af þessum verðmætum og á Breiðamerkursandi gilda sérstakir skilmálar um víðerni í Stemmuhólma. Landslag og víðerni eru mikilvæg viðföng náttúruverndar á Breiðamerkursandi og ættu nýting og skipulag að taka mið af verndargildi þeirra.
Menningarminjar
Á Breiðamerkursandi eru menningarminjar sem vitna um búsetu, samgöngur og rannsóknir á jöklum. Hluti þekktra minja eru í nálægð við álagssvæði vegna umferðar ferðafólks. Einu þekktu búsetuminjar innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs á Breiðamerkursandi, sem enn eru sýnilegar, eru við Fell. Minjarnar eru friðaðar sökum aldurs. Hrollaugshaugur, við austurmörk þjóðgarðsins á Breiðamerkursandi, er á skrá yfir friðlýstar fornleifar en ummerki um hann eru horfin vegna ágangs vatns. Í sögnum og örnefnum hefur fróðleikur varðveist til að mynda um ferðaleiðir, atburði og nytjar.
Menningarminjar á Breiðamerkursandi eru berskjaldaðar gagnvart raski og aðkallandi að varðveisla þeirra, fari í rétt ferli. Stór hluti minja á svæðinu er utan alfaraleiðar og umferð fólks um þær takmörkuð. Dæmi um slíkt eru mælingavörður. Í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs (2022) segir að sérstaða þjóðgarðsins felist ekki síst í menningarminjum og þeirri sögu sem hann geymir um samspil manna og stórbrotinnar náttúru. Minjar á Breiðamerkursandi geyma merka sögu á þessu sviði.
Innviðir
Innviðum vegna móttöku ferðafólks á Breiðamerkursandi er ábótavant. Niðurstöður þessa verkefnis sýna að innviðir á Breiðamerkursandi eru almennt ekki nógu burðugir til að þola þann mikla fjölda gesta sem kemur á svæðið og álag sem þeim fylgir. Ljóst er að úrbóta er þörf á slóðum að jaðri Breiðamerkurjökuls, bæði að vestan- og austanverðu. Sífellt er unnið að viðhaldi og stýringu á gönguleiðum og benda niðurstöður þessa verkefnis til þess að aðgerðir skili oft góðum árangri. Einnig er unnið að úrbótum á bílastæðum og nokkur aðkallandi verkefni eru á því sviði, ekki síst til að hindra umferð utan vega. Núverandi salernisaðstaða við Jökulsárlón er ekki í samræmi við þörfina á svæðinu. Traustari innviðir eru nauðsynlegir til að Vatnajökulsþjóðgarður geti haft sjálfbærni og gæði að leiðarljósi við móttöku gesta.
Atvinnutengd starfsemi á Breiðamerkursandi
Atvinnutengd starfsemi er heimil að fengnu leyfi frá Vatnajökulsþjóðgarði. Mikilvægt er að tryggja að slík starfsemi samræmist öllum markmiðum hans. Á Breiðamerkursandi er atvinnutengd starfsemi umfangsmeiri en víðast hvar annars staðar innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Ein af áherslum verkefnisins var að leggja mat á áhrif þess fjölda gesta sem kemur í íshellaferðir/jöklagöngur og á athafnasvæði Jökulsárlóns. Niðurstöður leiða í ljós að sá fjöldi veldur miklu álagi á náttúru og innviði og greina má neikvæð áhrif hans. Vegslóðar, og umhverfi þeirra, frá þjóðvegi 1 að jaðri Breiðamerkurjökuls vestan megin (Námuvegur/Breiðá) og austan megin (Þröng) eru undir miklu álagi. Samkvæmt greiningu Eflu veldur aksturslag um slóðir að Breiðamerkurjökli því að þær breikki að óþörfu og hratt. Í kaflanum er því lýst hvernig slíkt aksturslag sé að ástæðulausu með tilliti til umhverfisins og veldur óþarfa raski. Einnig er gerð að umfjöllunarefni staða slóðanna í skipulagslegu tilliti og ítrekað mikilvægi þess að veghaldari sé skilgreindur. Skýrt þarf að vera hver ber ábyrgð á viðhaldi þeirra. Núverandi ástand með stjórnlausri þróun og útvíkkun slóða, í kjölfar mikillar umferðar og óljósrar ábyrgðar, hefur valdið óþarfa skemmdum á náttúru og innviðum. Mikið álag er á athafnasvæði við Jökulsárlón en unnið er að endurskoðun deiliskipulags og fyrirhugað er að færa gestamóttöku fjær lóninu til austurs. Í ljósi álags á náttúru og innviði er óráðlegt að auka umfang atvinnutengdrar starfsemi við Jökulsárlón.
Breiðamerkursandur er viðkvæmt svæði sem þolir illa álag af völdum umferðar ferðafólks nema innviðir séu til staðar. Því er mælt gegn frekari dreifingu ferðafólks um Breiðamerkursand og ættu umsvif vegna ferðaþjónustu að einskorðast við skilgreind athafnasvæði. Önnur leið til að minnka álag eru fjöldatakmarkanir á gestum og/eða rekstraraðilum, sem eiga sér stoð í lögum um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.