Hreindýrskálfur í Lóni
Þó komið sé fram á sumar eru hreindýr enn á ferli á láglendinu á Suðausturlandi. Yfirleitt fara geldar hreindýrskýr, tarfar og ung dýr í sumarhaga á hálendinu frá lokum maí, en kelfdar kýr leita yfirleitt inn til dala eða fjalla til að bera. Tarfarnir geta þó haldið sig á láglendi sumarlangt allt fram að fengitíma.
Undanfarið hafa nokkur dýr haldið sig á túninu við Þorgeirsstaði í Lóni. Bóndinn þar, Ragnar Pétursson sagði hafa séð hreindýrskýr með nýfæddan kálf, nú fyrir helgi. Sjaldgæft er að kýr beri svona nálægt mannabyggð og það hafi ekki gerst á Þorgeirsstöðum síðastliðin 45 ár.
Skarphéðinn Þórisson á Náttúrustofu Austurlands segir að flestar kelfdar kýr fari á burðarsvæði inn til dala og fjalla til að bera. Gerist það þó annað slagið að hann rekist á nýborna kýr á túnum, síðast gerðist það í Lóni við bæinn Fjörð árið 2012.
Brynjúlfur Brynjólfsson náði þessum glæsilegu myndum af kálfinum í síðustu viku, en þá var hann um 300 metra frá móður sinni. Eftir myndunum að dæma má áætla að kálfurinn sé um viku gamall og braggaralegur. Skarphéðinn furðar sig á fjarlægð hans frá móður sinni en telur að hann hafi sennilegast sofnað á túninu.
Hreindýrskálfar þroskast mjög hratt fyrstu viku lífs síns og geta leikið eftir nær öllu atferli fullorðins dýrs stuttu eftir fæðingu. Nota þeir mikinn tíma í að hvílast og fá mjólk úr spena 40 til 50 sinnum á dag fyrstu vikuna sína en sjúga skemur þegar líður á haustið.
Helsta hættan sem þessum kálfi og móður hans stafar að er umferð um þjóðveginn.
Heimild
Skarphéðinn G. Þórisson (September 2010)Hreindýr. Útgefandi: Náttúrustofa Austurlands í samstarfi við Þekkingarnet Austurlands og NEED. Sótt 01.06.15 af: http://www.austurbru.is/static/files/PDF/eldra_efni/100901_hreindyr.pdf