Styrkþegar á Hótel Natura 1.desember við móttöku á styrkjum

Styrkur frá Vinum Vatnajökuls

Í síðustu viku tók Náttúrustofa Suðausturlands við styrk í verkefni sem stofan mun vinna að á nýju ári. Styrkurinn er í verkefni sem kallast „Náttúrustígur – jarðfærði svæðisins kynnt“. Í lýsingu á verkefninu segir: Náttúrustofa Suðausturlands hefur með velvilja Sveitarfélagsins Hornafjarðar og í samstarfi við Grunnskóla Hornafjarðar hafið gerð fróðleiksstígs, allt frá himingeimnum (sólkerfinu) til jökla, jarðfræði og flóru svæðisins til þess að kynna samhengi þess stóra og smáa í náttúrunni. Á göngustígnum, vestanmegin við byggðina á Höfn í Hornafirði er ætlunin að koma fyrir upplýsingum um náttúruna í víðu samhengi. Frá stígnum, sem nú er auðkenndur sem Náttúrustígur, er frábært útsýni til jökla og suðausturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsta skrefið í verkefninu var tekið sumarið 2014 þegar líkan af sólkerfinu í réttum stærðar- og fjarlægðahlutföllum var sett upp við stíginn. Næsti hluti sem gera skal skil á er jarðfræði og flóra suðaustanverðs Vatnajökulsþjóðgarðs. Stefnt er á að flytja stór grjót (grettistök) úr héraðinu að heppilegum stað/stöðum við stíginn ásamt jurtum úr flóru Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar verða einnig sett upp viðeigandi fræðsluskilti.

Alls hlutu 24 verkefni styrki að þessu sinni og má lesa nánar um það á vef Vina Vatnajökuls: http://www.vinirvatnajokuls.is/styrkir/ og fréttir um styrkveitinguna á mbl.is.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/01/uthluta_taeplega_40_milljonum_i_styrki/