Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar: Árbók FÍ 2024
Vorið 2024 kom út árbók Ferðafélags Íslands, og er það í 97. árið í röð sem það gerist. Árbókin 2024 heitir – Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar – og eins og titillinn gefur til kynna fjallar hún um svæði sem nær frá Djúpá í Fljótshverfi austur í Steinadal í Suðursveit. Það markast í suðri af strandlengjunni og í norðri vatnaskilum Vatnajökuls. Allt svæðið er innan þeirra marka sem við á Náttúrustofu Suðausturlands skilgreinum okkar starfsvettvang í rannsóknum á náttúrufari.
Þrjár af árbókum Ferðafélags Íslands hafa áður fjallað um suðausturland með einum eða öðrum hætti. Sú fyrsta nefnist Austur-Skaftafellssýsla og hún kom út árið 1937. Jón Eyþórsson veðurfræðingur, forseti Ferðafélagsins og stofnandi Jöklarannsóknafélags Íslands tók hana saman. Hún lýsir landsháttum í sýslunni, frá Skeiðarárjökli í vestri og austur í Lónsöræfi. Árbókin 1979 – Öræfasveit – var rituð af Sigurði Björnssyni á Kvískerjum, og afmarkast við þá fallegu sveit. Á þeim tíma höfðu stórvötnin á Skeiðarársandi nýlega verið brúuð og breyttir samgönguhættir gert aðgengi í sýsluna betra en fyrr. Þriðja árbókin kom svo út árið 1993. Sú heitir – Við rætur Vatnajökuls – og lýsir frá Austur-Skaftafellssýslu, að stórum hluta. Bókin var rituð af Hjörleifi Guttormssyni náttúrufræðingi, sem er einn höfunda hinnar nýju árbókar. Ásamt Hjörleifi eru höfundar árbókarinnar 2024 þeir Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur. Langflestar ljósmyndir í bókinni eru eftir höfundana og jafnframt sá Snævarr um gerð korta og skýringarmynda.
Að vanda kynna árbækur Ferðafélagsins valin svæði í gegnum landlýsingu, jarðfræði og náttúrufar. Að auki er fjallað um söguna, samfélagið og einstaklinga sem hafa verið áberandi þar. Sagt er frá stofnun Skaftajökulsþjóðgarðs, sem varð síðar hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Á þeim rúmu þrjátíu árum sem hafa liðið frá því að árbók fjallaði síðast þetta svæði hafa miklar breytingar orðið í þessum landsfjórðungi, bæði landslagi og jöklunum en einnig samfélaginu. Meira um bókina má sjá hér.