Jólakveðja 2021 frá Náttúrustofu Suðausturlands
Verkefni í þágu náttúrunnar 2021
Náttúrustofa Suðausturlands er nú á níunda starfsári sínu og heldur áfram að eflast og stækka. Starfsmenn hafa aldrei verið fleiri en mest voru tíu manns við stofuna í sumar og eðli málsins samkvæmt var því talsverð fjölbreytni í verkefnum ársins. Nokkur fjöldi verkefna stofunnar eru langtímaverkefni og byggja á viðvarandi fjámögnun stofunnar, sem dæmi um það eru vöktunarverkefnin okkar svo sem fiðrilda- og pödduvöktun, jöklamælingar og nýjasta langtímaverkefnið sem er Vöktun náttúruverndarsvæða. Mestur fjöldi verkefna okkar eru þó stök verkefni sem eru fjármögnuð með sértekjum sem sóttar eru í ólíka sjóði. Sum verkefnanna reka þó óvænt á borð okkar og í ár stendur klárlega upp úr heimsókn rostungsins Valla á Höfn upp úr sem eitt það eftirminnilegasta frá starfsárinu enda vakti hún heimsathygli.
Eitt af stærri verkefnum sem hófst á árinu var nýsköpunarverkefni sem hlaut 8,5 milljóna styrk frá Loftslagssjóði og er unnið á starfstöð okkar í Skaftárhreppi. Verkefnið heitir Kolefnisforði og CO2 flæði úr jarðvegi – samstarfsverkefni um vöktun á völdum landgerðum og er í samstarfi við Landgræðsluna. Markmið verkefnisins er að mæla kolefnisforða og CO2 flæði úr þurrlendisjarðvegi í Skaftárhreppi og þannig er hægt að áætla heildarlosun eða bindingu úr völdum vistgerðum. Annað verkefni sem unnið var að á árinu hlaut styrk úr Loftlagssjóði árið 2020 og snýr að endurmyndatöku allra jökla Íslands en það var síðast gert árið 2010. Það er gaman að segja frá því að í ár fékkst flugmaður frá Höfn, Pálmi Freyr Gunnarsson, til að fljúga með Snævarr við myndatökur á Vatnajökli.
Náttúrustofan og Landgræðslan hafa átt í samstarfi í nokkur ár með verkefnið Bændur græða landið en í ár hefur bæst í verkefnin, bæði með kolefnisforðaverkefninu og einnig hófst samstarf um verkefnið Grógos sem miðar að því að finna gróður og plöntutegundir sem standast álag sem jökulhlaup valda og eru öflugar til að binda fok gosefna. Það verkefni er unnið í Skaftárhreppi enda er það svæði sem er oft illa leikið af jökulhlaupum. Starfsmenn í Skaftárhreppi hafa einnig undanfarið ár unnið að kortlagningu lúpínu, komið að hönnun á frisbý-golfvelli og staðsetningu ruslagáma.
Í lok sumars hófum við fyrstu skref verkefnis sem snýr að kortlagningu á útbreiðslu tröllasmiðs, en það er bjöllutegund sem finnst einungis hér í Hornafirði af öllum heiminum. Í því verkefni leituðum við meðal annars til almennings og óskuðum eftir upplýsingum ef fólk hefði orðið vart tröllasmiðs. Það fékkst talsverður fjöldi svara en við ítrekum að við tökum enn við upplýsingum um fundarstaði en slíkt hjálpar okkur heilmikið við verkefnið.
Verkefni stofunnar vöktu í ár heilmikla athygli fjölmiðla sem við fögnum því við viljum að niðurstöður okkar rannsókna fari sem víðast og höfum metnað fyrir að fræða og upplýsa. Jöklarannsóknirnar vekja jafnan mikinn áhuga, ekki hvað síst erlendis, og hafa komið innslög frá þeim í fjölda bæði innlendra og erlendra fréttamiðla. Náttúrustofan hefur nú síðan árið 2017 farið árlega í rannsóknarleiðangra út Skúmey á Jökulsárlóni, enda lítum við á hana sem okkar eigin Surtsey þar sem tækifæri er á að fylgjast með náttúrulegri framvindu „nýrrar“ eyju. Í ár komu með út í eyjuna starfsfólk fréttastofu RÚV sem fylgdust með okkur við hreiðurtalningar helsingja og leit að merktum einstaklingum. Í Skúmey fundust fjórir helsingjar sem fengu staðsetningartæki sumarið 2020 og ljóst að þeir allir verpa þar, enda er það langstærsta helsingjavarpið á landinu. Varpið í ár gekk þó ekki neitt sérstaklega vel hjá fuglunum með staðsetningartækin. Gassinn Sæmundur hafði það þó af að koma ungum sínum yfir Jökulsárlón og labba með þeim alla leið austur fyrir Breiðabólsstaðarlón en til þess eins að verða étinn. Það er því ljóst að næsta sumar fær nýr fugl staðsetningartækið sem Sæmundur bar.
Það var ekki einungis helsingjarnir sem áttu fremur slæmt varptímabil heldur gekk skúmnum illa að koma upp ungum í sumar. Fylgst var með varpinu hjá skúmnum með eftirlitsmyndavélum en ætlunin var að fylgjast með hvaða æti fullorðnu fuglarnir væru að bera í ungana. Sökum þess hve fá egg náðu að klekjast fengust litlar upplýsingar um fæðuval en engu að síður fékkst áhugaverð sýn inn í líf skúmsins. Í tengslum við verkefnið Vöktun náttúruverndarsvæða var fylgst með varpi skúms á stóru svæði umhverfis þjónustusvæðið við Jökulsárlón, þar náði engin skúmur að koma ungum á legg. Hins vegar var einnig fylgst með skúmum í Ingólfshöfða og þrátt fyrir brösuga byrjun þá virtist varpið þar fara ágætlega. Í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands voru skúmshreiður á öllum Breiðamerkursandi kortlögð og út frá því sést að varp hafi gengið almennt illa á öllu því svæði. Áfram verður fylgst grannt með skúmnum.
Náttúrustofan leitaði til Vegagerðarinnar um fjármagn til rannsóknar á fuglalífi við nýjan veg um Hornafjörð sem hún veitti. Í sumar hófst því rannsókn á fuglalífi á svæðinu umhverfis væntalega (og þann kafla sem þegar hefur verið lagður) veglínu og nálægum tjörnum. Í framtíðinni má því bera saman fuglalífið fyrir og eftir veglagningu og ættu þær niðurstöður að auðvelda faglegri ákvarðanir við staðsetningu nýrra vega.
Fjórir starfsmenn unnu hjá stofunni yfir sumarmánuðina og var einn þeirra ráðinn vegna styrks frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Unnu sumarstarfsmenn okkar m.a. við rannsókn á berghleif á vestanverðum Breiðamerkursandi og kortlagningu jarðfræði svæðisins til að kanna tengingu við Breiðamerkurfjall og var markmiðið að kortleggja innskot sem hafa ekki verið skoðuð áður. Eins var unnið að talningum, merkingum og aflestri af merktum helsingjum á Suðausturlandi í sumar.
Nýlega hófst samstarfsverkefni með Nýheimum Þekkingarsetri og Vatnajökulsþjóðgarði sem snýr að þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi og er markmiðið að meta ástand svæðisins út frá náttúru, innviðum og menningarminjum og gera áætlun um hvernig tryggja megi sjálfbæra þróun þess, auk þess að rýna viðhorf ferðafólks. Einnig tekur stofan þátt í verkefni með Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Hornafirði sem kallast Vísindaferðaþjónusta og snýr að nýsköpun í ferðaþjónustu þar sem vísindalegri þekkingu um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga er miðlað til fyrirtækja sem sérhæfa sig í jöklaferðum og er markhópurinn íslenskir ferðamenn.
Á árinu var undirrituð loftslagsyfirlýsing Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Festu – miðstöðvar um sjálfbærni og samfélagsábyrgð um stuðning vegna loftslagsaðgerða fyrirtækja og stofnana. Náttúrustofan tekur þátt í þessu verkefni ásamt fjölda annarra og ætlar með því að setja sér markmið í loftslagsmálum, fræðast um og framkvæma aðgerðir og mæla árangur þeirra. Að lokum nefnum við skemmtilegt verkefni sem Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkti sem kallast fortíðarsamtal – fyrir framtíðina en þar tökum við viðtal við nokkrar eldri konur á Suðausturlandi til að varðveita sögu þeirra, sjónarhorn og upplifun á breytingum á umhverfi, atvinnuháttum og tíðaranda. Við erum afar spennt fyrir þessu verkefni sem við teljum bæði fróðlegt og þarft.
Látum hér staðar numið við þessa yfirferð sem er þó ekki tæmandi listi yfir öll þau verkefni sem hafa verið unnin á því skemmtilega ári 2021. Við óskum öllum velunnurum Náttúrustofu Suðausturlands gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Hlökkum til samstarfs á nýju ári.
Fyrir hönd starfsmanna,
Kristín Hermannsdóttir forstöðumaður