Fiðrildavöktun 2020
Náttúrustofan rekur fjórar fiðrildagildur, ein er staðsett á Mýrum í Álftaveri, önnur í Mörtungu á Síðu en tvær eru í Einarslundi við Hornafjörð. Gildrurnar eru settar upp um miðjan apríl og teknar niður í byrjun nóvember ár hvert en tæmdar vikulega. Nú er greiningum lokið á afla síðasta árs (2020). Helstu niðurstöður ársins má sjá hér að neðan en nánari upplýsingar um verkefnið, tegundalista og fleira má sjá á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Rekstur gildrunnar á Mýrum gekk þokkalega, en þar var rafmagnsvandi um tíma, einkum undir lokin. Var þetta annað sumarið sem gildran var í gangi og komu í hana 288 fiðrildi af 20 tegundum, en árið áður komu 18 tegundir í gildruna. Mest barst í gildruna af haustfeta (Operophtera brumata) eða 72, en næst í röðinni var brandygla (Euxoa ochrogaster) með 46 eintök og í þriðja sæti var túnfeti (Xanthorhoe decoloraria) með 32 eintök. Þessar þrjár tegundir stóðu því undir um 52% aflans. Þessar tegundir lifa ekki samtímis, en túnfetinn kom í gildruna í júní og fram í júli, þá tók brandyglan við í ágúst og fram í september og í október var haustfetinn á ferðinni.
Gildran í Mörtungu var aðeins til vandræða í fjórar vikur, en gekk vel að öðru leiti og var þetta sjötta árið sem gildran er starfrækt. Fjöldi fiðrilda var langt yfir meðallagi en heildarfjöldi fiðrilda var 13.544 af 23 tegundum. Munaði þar mest um grasvefara (Eana osseana) sem var í allt 12.741 eintök og um 11 þúsund þeirra komu í einni tæmingu þann 20. ágúst og var grasvefari því 94% af því sem kom í gildruna. Sú tegund sem kom næstmest í gildruna var jarðygla (Diarsia mendica) líkt og flest síðustu ár. Tegundafjöldinn var sá sami og árið áður, en hefur mest verið 36 árið 2015. Ein ný tegund barst í gildruna í sumar, mosabugða (Bryotropha similis).
Gildrurnar í Einarslundi við Hornafjörð gengu vel í sumar. Fjöldi fiðrilda var svipaður og síðustu ár. Í gildru 1 sem komu 1138 fiðrildi af 24 tegundum og í gildru 2 komu 1828 eintök af 26 tegundum. Mest barst í báðar gildrurnar af barrvefara (Zeiraphera griseana) og í gildru 1 kom næstmest af jarðyglu og í gildru 2 kom næstmest af grasvefara. Nýjar tegundir í Einarslundi árið 2020 voru slútvefari (Epinotia caprana) og skógafeti (Erannis defoliaria).