Ástandsmat á beitarlandi á Kvískerjum í Öræfum 2018
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um ástandsmat á beitarlandi á Kvískerjum í Öræfum 2018. Verkefnið var styrkt af Atvinnu- og rannsóknarsjóði Sveitarfélagins Hornafjarðar 2018 og samstarfsaðilar voru landeigendur á Kvískerjum. Var skýrslan unnin veturinn 2018-2019 og vorið 2020.
Helstu niðurstöður ástandsmatsins á Kvískerjum árið 2018 sýna að ástand gróðurs er sæmilegt. Á skalanum 0 til 5, þar sem 0 er best, er tíðasta einkunn allra matsvæða 2. Gróðurþekjan er nánast heil eða í jafnvægi. Jarðvegur frekar stöðugur og rofabörð ekki útbreidd, en þó til staðar á nokkrum stöðum. Sina er frekar lítil og uppskera er ekki mikil. Hafa skal í huga að landið ber augljós ummerki jöklalandslags. Framhlaup og hopun skriðjökla ásamt óbeisluðum jökulám hefur mótað landið síðustu árþúsund, sem útskýrir litla uppsöfnun jarðvegs. Með áframhaldandi frið frá náttúruöflum og hóflegri beit er landið líklegast í framför.
Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.