Tjarnarsýn – ljósmyndasýning

Föstudaginn 10. janúar opnar ljósmyndasýning í bókasafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sem haldin er á vegum Náttúrustofu Suðausturlands og er að hluta styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Sýningin er hliðarafurð rannsóknar sem farið fram hefur síðustu tvö ár á fuglalífi á og við tjarnir í Sveitarfélaginu Hornafirði en myndirnar eru allar teknar með flygildi.

Tjarnir og vötn eru sérstök búsvæði og mynda oft keðju af lífríkum svæðum frá fjöru til fjalla. Talið er að á Íslandi séu um 7000 smávötn og tjarnir á stærðarbilinu 1-10 ha og 1841 stærri en 10 ha. Dýralíf tjarna og smávatna er oft mjög auðugt og  vaxtartímabil lífvera þar er oft stutt. Því fer stærstur hluti framleiðslu slíkra búsvæða fram á stuttu tímabili yfir sumarið sem endurspeglast í miklum fjölda dýra á þeim tíma. Tjarnir, vötn og votlendi eru mikilvæg búsvæði fyrir stóran hluta íslenskra fuglategunda en um 70% varptegunda nýta ferskvatnsvotlendi og tjarnir að einhverju marki og 40% eru algerlega bundnar slíkum svæðum til varps eða fæðuöflunar á varptíma. Víða í Sveitarfélaginu Hornafirði má finna vötn og tjarnir enda votlendi víða. Tjarnir og smávötn eru nátengd votlendi og í sameiningu hafa þessi tvö búsvæði mikil áhrif á viðstöðu og hringrás vatns, uppsöfnun og losun næringarefna og eru því mikilvæg fyrir aðliggjandi búsvæði sem uppspretta orku og næringarefna.

Umhverfi og útlit tjarna og vatna eru margbreytileg. Eðlisþættir svo sem dýpi, næringargildi, tærleiki, sýrustig og fleira hefur áhrif á gerð tjarna og vatna og mótar lífríkið sem þar þrífst. Einnig hafa aðliggjandi búsvæði, lengd frá sjó, ákoma næringarefna, landsvæði og fleira mikil áhrif. Þessari sýningu er ætlað að fanga þennan breytileika. Tjarnir eru ekki eilífar og breytast með tímanum út frá grunnvatnsstöðu, áfoki, írennsli og afrennsli auk annarra lífrænna og ólífrænna þátta. Þessu verkefni var ætlað að skrásetja stöðuna sumarið 2019. Með tímanum má endurtaka verkefnið og sjá myndrænt þær breytingar sem verða á næstu áratugum.

Við bjóðum alla hjartanlega velkomna á opnun sýningarinnar klukkan 16:00 næstkomandi föstudag. Í boði verða léttar veitingar. Sýningin, sem er sölusýning, mun verða uppi næstu 6 vikur og hægt að sjá hana á opnunartíma bókasafnsins. Myndirnar á sýningunni eru teknar af dr. Lilju Jóhannesdóttur, vistfræðings Náttúrustofunnar.

 Lítil tjörn rétt við Eskey á Mýrum. Er myndin hluti af sýningunni.
Lítil tjörn rétt við Eskey á Mýrum. Er myndin hluti af sýningunni.