Umhverfisráðherra heimsækir Náttúrustofu Suðausturlands
Miðvikudaginn 3. júlí 2019 heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra Náttúrustofu Suðausturlands, en stofan starfar samkvæmt rekstrarsamningi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Auk þess vinnur hún að samningsbundnum verkefnum á vegum ráðuneytisins og verkefnum sem hljóta styrki úr samkeppnissjóðum. Ánægjulegt var að fá Guðmund Inga ráðherra, Orra Pál Jóhannsson aðstoðarmann hans, Guðríði Þorvarðardóttur og Jón Geir Pétursson samstarfsfólk þeirra úr ráðuneytinu í heimsókn á Höfn. Starfsmenn stofunnar áttu góðan fund með gestunum um málefni og verkefni stofunnar. Margt var rætt á fundinum og meðal annars kom fram mikilvægi þess að hafa fólk með sérþekkingu nærri viðfangsefnum, slíkt er fjárhagslega hagkvæmt og einnig eflir starfsemi fjölbreyttra stofnana innan þekkingarmiðstöðva samfélagið og ýtir undir samstarf milli stofnana.
Að loknum fundi var haldið út á Jökulsárlón þar Vatnajökulsþjóðgarður vígði fræðslustíg sem er afrakstur góðs samstarf fjölda stofnanna og einstaklinga og var styrktur af Vinum Vatnajökuls. Á fræðslustígnum má sjá skilti um náttúru svæðisins. Náttúrustofa Suðausturlands vann efni á fjögur skilti; um loftslagsbreytingar, myndun jökullóna, liti ísjaka og einkennisfugla svæðisins. Við hvetjum alla að staldra við á leið sinni um Suðausturland og skoða fræðslustíginn og umhverfið við Jökulsárlón.