Uppskeruferð, 18. júní 2018.

Uppskerutap vegna ágangs gæsa á valin ræktarlönd á Suðausturlandi vorið 2018

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa á valin ræktarlönd á Suðausturlandi vorið 2018. Verkefnið var samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Austur-Skaftafellssýslu og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Skýrslan greinir frá framhaldsverkefni sem unnið var í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum árið 2018. Borin var saman uppskera af friðuðum grasreitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori og fram á sumar á grasuppskeru. Var þetta í fimmta sinn sem sambærileg rannsókn var framkvæmd.

Niðurstöður sýna að meðaltali 0,87 tonna mismun af þurrefni á hektara á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 24% minni þar sem fuglar komust um túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því 3,1 heyrúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Kostnaðarútreikningar sýna að mismunur á uppskeru kostaði að meðaltali 24.647 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjölda en líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér

Bitför á grasi á túni við Flatey á Mýrum, 18. júní 2018. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir.
Bitför á grasi á túni við Flatey á Mýrum, 18. júní 2018. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir.