Úrkoma á Höfn í maí 2018

Á Höfn er mæld úrkoma og fleiri veðurathuganir gerðar að Höfðavegi 10. Í maí komu 188,6mm í þann mæli sem er 240% af meðalmánaðarúrkomu áranna 1961-1990 þar. Metið sem hefur mælst á Höfn í maí eru 201,2mm árið 1978. Svo maímánuður þessa árs er í öðru sæti hvað varðar úrkomumagn. Í fyrra mældust 178,9 mm svo sá mánuður er í þriðja sæti af úrkomumestu maímánuðum á Höfn. Í fjórða sæti er svo maí árið 1976 þegar úrkoman mældist 168,9mm.

Til samanburðar má geta þess að í Borgum í Nesjum mældust núna 194,1mm og á Kvískerjum í Öræfum 463,3mm. Og í Reykjavík féll úrkomumet frá upphafi mælinga, en þar mældust í allt 128,8mm í maí.

Þegar skoðuð er sólarhringsúrkoma kl. 09 hvern dag á Höfn, má sjá að einungis var alveg þurrt í tvo sólarhringa í mánuðinum og mest mældist úrkoman að morgni 10. maí, 26 mm. Á súluritinu hér fyrir neðan má sjá úrkomuna sem mældist hvern sólarhring fyrir sig.

Rétt er samt að taka fram að margir dagar í mánuðinum verið þurrir að stórum hluta, einkum yfir daginn.

Súlurit sem sýnir úrkomu hvers sólarhrings, mælt kl. 09 að morgni á Höfn.

Súlurit sem sýnir úrkomu hvers sólarhrings á Höfn, mælt kl. 09 að morgni.

 

 

Þorvarður Árnason og Harald Schaller í ferð með Náttúrustofu Suðausturlands inn að Fláajökli í góðu veðri, 4. maí 2018. Ljósmynd: Kristín Hermannsdóttir

Nánari upplýsingar um veðurfar víða  á landinu má lesa á vef Veðurstofu Íslands.