Fiðrildagildrur tendraðar og yfirlit yfir fiðrildin frá 2017
Í gær, 16. apríl 2018 var kveikt á þremur fiðrildagildrum á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, en fiðrildavöktun er í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. (sjá vef NÍ)
Árið 2017 voru gildrurnar einnig þrjár á Suðausturlandi. Tvær í Einarslundi við Hornafjörð og ein í garðinum við Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 17. apríl var kveikt á þeim og loguðu þær langt út í nóvember.
Fyrstu fiðrildin veiddust á Höfn í byrjun maí, en flest fiðrildi voru í þeim við vitjun seinni hluta ágúst, 329 stykki í annarri gildrunni og 455 stykki í hinni (gildru-2). Umsjón með gildrunum er í höndum Björns Gísla Arnarsonar og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands.
Fyrstu fiðrildin í Mörtungu komu í gilduna í byrjun maí og flest voru fiðrildin í henni við vitjun um 20. ágúst, 813 stykki. Umsjón með gildrunni er í höndum Rannveigar Ólafsdóttur.
Mynd 2 sýnir fjölda veiddra fiðrilda í hverri viku sumarið 2017. Flest þeirra komu í gildrurnar um miðbik og síðari hluta ágúst, en mjög fá veiddust eftir lok september.
Á mynd 3 má sjá þær tíu tegundir sem algengastar voru í gildrunum sumarið 2017 og hlutfall þeirra af heildinni á hverjum stað. Í allt komu 23-25 tegundir í gildrurnar og heildarfjöldinn sem gildrurnar fönguðu yfir sumarið var 6129 fiðrildi og komu 43% þeirra í gildruna í Mörtungu. Fjöldi veiddra fiðrilda á milli ára hélst nokkuð stöðugur.
Algengasta tegundin í Mörtungu er grasvefari, en tígulvefari í báðum gildrum á Höfn. Fjöldi grasvefara og jarðygla í Mörtungu sker sig úr samaborið við gildrurnar á Höfn. Einnig er áberandi mikið af tílugvefara á Höfn, samanborið við Mörtungu.
Á síðustu árum hafa allt í allt veiðst 48 tegundir fiðrilda á Höfn, en 38 tegundir í Mörtungu.
Ef einstaka flækingstegundir eru skoðaðar má sjá að gammayglur komu í allar gildrurnar á SA-landi sumarið 2017, eða 13 stykki í allt (mynd 5), en það er algengasta flækingstegundin hér á landi. Eins komu 8 kálmölir í gildruna í Mörtungu, en á Höfn komu einungis einn slíkur í gildruna.