Í Endalausadal í Lóni

Ástandsmat á gróðurlendi í Endalausadal í Lóni

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um ástandsmat á gróðurlendi í Endalausadal í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu árið 2015. Samstarfsaðilar voru Landgræðsla Ríkisins, landeigendur í Endalausadal og Herdís Ólína Hjörvarsdóttir líffræðingur.

Íslenskur sauðfjárbúskapur byggist fyrst og fremst á frjálsri úthagabeit sauðfjár yfir sumarmánuðina. Gott ástand úthaga skiptir því miklu máli ef sauðfjárrækt á að vera hagkvæm og umhverfisvæn. Vöxt og viðhald búfjárs í úthaga má rekja til þess í hvernig ástandi beitarlandið er. Sömuleiðis er verndun landsvæða gegn ofnýtingu og landgræðsla mikilvægur þáttur í því að vinna gegn hnattrænni hlýnun. Til að geta fylgst með breytingum á ástandi gróðurlands þarf að fara fram mat á því með reglulegu millibili. Út frá reglubundnu mati má sjá þróun svæðis og gögn sem verða til við matið nýtast meðal annars við ákvarðanatöku vegna beitarstýringar og landgræðslu.

Helstu niðurstöður ástandsmatsins í Endalausadal árið 2015 sýna að ástand dalsins er fremur slæmt. Gróðurþekja er oftar en ekki mjög takmörkuð vegna grjóts og rofs, en sérstaklega var algengt að sjá rofdíla í sverði. Þessir rofdílar og rofabörð bera þess merki að dalurinn sé, eða a.m.k. hafi verið í gegnum tíðina, ofbeittur. Ekki má því mikið út af bregða svo að dalurinn fari þjást alvarlega af jarðvegsrofi. Tækifæri til bóta er að takmarka beit í dalnum, en einnig mætti skoða uppgræðslu með Landgræðslunni.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.