Helsingjar merktir á Breiðamerkursandi sumarið 2017
Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands, Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt fleirum tóku þátt í að merkja helsingja á Breiðamerkursandi í lok júlí. Verkefnið er hluti af stærra fuglamerkingaverkefni á vegum Arnórs Sigfússonar, dýravistfræðings hjá Verkís, fuglafræðinga hjá Wildfowl & Wetlands í Bretlandi (http://www.wwt.org.uk/) og Halldórs Walters Stefánssonar á Náttúrustofu Austurlands. Eru þessar merkingar m. a. liður í því að fylgjast með hátterni fuglanna og ferðum þeirra. Þeir fóru víða um öræfi á Norður- og Austurlandi, merktu nokkur hundruð gæsir og settu GPS senda á fjölmargar þeirra. Sagt var frá þessum merkingum í sjónvarpsfréttum RÚV, sunnudaginn 30. júlí http://ruv.is/sarpurinn/klippa/smala-gaesum-og-merkja-med-gps-sendum. Í lokin á sömu ferð komu þeir við á Breiðamerkursandi. Þar var 41 helsingi merktur með númeruðu álmerki á öðrum fæti og lituðu bókstafsmerki á hinum.
Fuglunum var smalað saman og settir í net og háfa. Því næst voru þeir kyngreindir og merktir. Þegar allir fuglarnir höfðu fengið merki var þeim sleppt á ný. Nú verður að bíða og sjá hvar og hvenær þessir fuglar sjást eða nást næst.

Carl Mitchell kyngreinir einn helsingjann og Rósa Björk Halldórsdóttir (t. h.) og Kristín Hermannsdóttir bíða átekta. Mynd: Halldór Walter Stefánsson, 28.júlí 2017.

Björn Gísli Arnarson og Hrafnhildur Ævarsdóttir með sinn hvorn helsingjann. Mynd: Kristín Hermannsdóttir, 28. júlí 2017.

Kristín Vala Þrastardóttir og Halldór Walter Stefánsson með nýmerktan helsingja. Mynd: Kristín Hermannsdóttir, 28. júlí 2017.