Grunnrannsóknir lífríkis við Míganda í Skarðsfirði

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um grunnrannsóknir lífríkis við Míganda í Skarðsfirði sumarið 2015. Verkefnið var styrkt af Atvinnu- og rannsóknarsjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar en samstarfsaðilar voru Fuglaathugunarstöð Suðausturlands, Jón S. Ólafsson á Veiðimálasofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Framhaldsskólinn í Austur- Skaftafellssýslu og Náttúrufræðistofunun Kópavogs.

Mígandi er dragá sem rennur í Skarðsfjörð. Fyrir um 40 árum var farvegi árinnar beint í Bergá vegna flóða yfir vatnsból Hornfirðinga. Vatnsbólið var fært norðar um 10 árum síðar, en vatni Míganda var aldrei beint aftur sinn gamla farveg. Nú eru uppi hugmyndir að endurheimta ána.

Sumarið 2015 voru gerðar grunnrannsóknir á lífríki Míganda með áherslur á vatnalífið í ánni, gróðurþekju við farveginn, ífánu leirunnar sem áin rennur í, grunnmælingar í vatninu, svo sem sýrustig, leiðni og seltu, ásamt fuglatalningum í Skarðsfirði.

Helstu niðurstöður sýna að botndýralíf einkenndist á rykmýi og tegundum sem flestar eru aðlagaðar lygnum búsvæðum. Blaðgræna botnþörunga var lítil. Gróðurþekja var metin og tegundafjölbreytileiki plantna skráður. Ífánan í árósnum var einsleit eins og við mátti búast vegna erfiðra ísalta aðstæðna. Leiðni í ánni var í hærra lagi miðað við dragár. Fuglalífið er gífurlega mikið og fjölbreytt og dreifðist misjafnlega um fjörðinn.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

IMG_2373

Mígandi – nærri Sauðanesi

 

Sérfræðingur óskast á Náttúrustofu Suðausturlands

Sérfræðingur óskast til starfa á Náttúrustofu Suðausturlands, Kirkjubæjarklaustri.

Starfið er laust frá 1. ágúst 2016 eða eftir nánara samkomulagi. Skilyrði fyrir ráðningu er búseta á Kirkjubæjarklaustri eða í Skaftárhreppi.

Helstu verkefni

Þátttaka við gerð hættumats vegna jökulhlaupa á Skaftársvæði, í samstarfi við Veðurstofu Íslands.

Samantekt skýrslu á fyrirliggjandi gögnum um jökulvötn í Skaftárhreppi og áhrif þeirra.

Önnur sérhæfð verkefni, eftir atvikum, sem heyra undir starfsemi stofunnar.

Menntun og hæfniskröfur
  • Háskólapróf í náttúruvísindum er skilyrði.
  • Reynsla af náttúrurannsóknum.
  • Metnaður og sjálfstæði í starfi.
  • Samstarfshæfni.
  • Öguð vinnubrögð.
  • Gott vald á íslensku og a. m. k. einu öðru tungumáli.

Leitað er að náttúrufræðingi með frumkvæði, yfirsýn og skipulagsfærni ásamt faglegri framkomu.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og viðkomandi stéttarfélags.

Umsókn fylgi náms- og starfsferilskrá. Mat á hæfni umsækjenda byggist m.a. á innsendum gögnum og viðtölum.

Umsóknarfrestur er til og með 20. júní 2016.

 Nánari upplýsingar veitir

Kristín Hermannsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands, í síma 470-8060. kristin@nattsa.is. Sótt er um starfið rafrænt á sama netfang. Öllum umsóknum verður svarað.

Náttúrustofa Suðausturlands er rannsóknarstofnun á sviði náttúrufræða sem staðsett er á Hornafirði, en verður með starfsstöð á Kirkjubæjarklaustri frá og með ágúst 2016.

Verkefni náttúrustofunnar eru öflun upplýsinga um náttúru Suðausturlands og gera þær aðgengilegar þeim sem á þurfa að halda. Náttúrustofa Suðausturlands tekur að sér margvísleg verkefni á þessu sviði fyrir; ríki, sveitarfélög, stofnanir eða einkaaðila.

Auglýsing um starf 2016

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2015

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2015 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Sýni úr steinasafni Þorleifs Einarssonar í Nýheimum

Inni í Nýheimum hafa verið settir upp nokkrir steinar og steingervingar úr steinasafni Þorleifs Einarssonar. Hann gaf Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Hornafirði safnið sitt og er það nú hýst hjá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Nú hafa verið valin nokkur eintök til sýningar í sýningarborð framan við bókasafnið í Nýheimum og einnig í glerskápum á eftir hæð Nýheima, rétt ofan við stigann. Fólk er hvatt til að koma og skoða þessa steina og steingervinga sér til fræðslu og ánægju.

Þorleifur Einarsson var íslenskur jarðfræðingur. Hann fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1931 en lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi 22. mars 1999. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands : jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.

Í skápunum á efri hæðinni er jafnframt að finna ýmsa hluti sem tengjast skólastarfi í FAS. Flestir tengjast þeir erlendu samstarfi í skólaunum en einnig eru nokkrir verðlaunagripir.

 

Hluti af steinasafni Þorleifs Einarssonar á efri hæð Nýheima

Hluti af steinasafni Þorleifs Einarssonar á efri hæð Nýheima

Merkúríus fyrir sól 9. maí 2016

Þann 9. maí næstkomandi mun heldur óalgengur atburður eiga sig stað, þegar reikistjarnan Merkúríus, gengur fyrir sól séð frá jörðu. Slíkur atburður er nefndur þverganga. Samkvæmt almanaki Háskóla Íslands gerðist slíkt fjórtán sinnum á síðustu öld og svo mun einnig verða á 21. öldinni.

Vegna þess hve Merkúríus er lítill í samanburði við sólina er þó ekki auðvelt að greina hana. Sjónauka þarf til en einnig er sólin svo björt að afar hættulegt er að horfa í hana. Sérstakar ljóssíur þarf til þess og sem hleypa einungis broti af sólarljósinu í gegnum sig. Engum er ráðlagt að skoða þetta nema með slíkum búnaði.

Náttúrustofa Suðausturlands ætlar að bjóða áhugasömum að kíkja í gegnum sjónauka með þar til gerðri ljóssíu, ef veður leyfir og sólin verður sjáanleg. Þvergangan hefst um kl 11:13 og lýkur 18:41. Á milli er hægt að sjá Merkúríus bera fyrir sólskífuna en stærð hans er einungis á við sólbletti sem stundum má sjá í yfirborði sólar.

Ef viðrar verður hægt að heimsækja okkur í Nýheima á milli 11:30-12:00, 14:00-14:30 og 16:00-16:30.

20160128_081724

Sjónauki Náttúrustofunnar.

Ætluð þverganga Merkúríusar, 9. maí 2016.

Ætluð þverganga Merkúríusar, 9. maí 2016. Mynd fengin á Wikipedia.