Snæfell sést frá Lóni
Fyrir nokkru síðan var okkur á Náttúrustofu Suðausturlands bent á að það væri hægt að sjá Snæfell (1833 m) á Fljótdalshéraði, frá Suðausturlandi, á afmörkuðum kafla við hringveginn í Lóni. Þetta var ótrúlegt að heyra því landið austan við Vatnajökul er svo hálent og tindótt að við fyrstu umhugsun teldi maður það ósennilegt. Var undirritaður frekar vantrúaður á að svo væri. Í hvert sinn sem leiðin lá um Lón á heiðríkjudögum var skimast um eftir tindinum en jafnvel það nægði ekki þess að sannfærast um hvort það væri efsti hluti Snæfells sem sæist í raun og veru en ekki einhver annar tindur.
Náttúrustofunni barst síðan óvænt en velþegin hjálp til að skera úr um þetta. Einar Björn Einarsson á öflugan dróna með innbyggðri myndavél. Honum þótti sjálfsagt að bregðast við bón okkar um að kanna þetta til hlýtar. Heiðríkjudaginn 17. mars 2016 fórum við austur fyrir Laxá í Lóni, ekki langt frá veginum sem liggur inn í Lónsöræfi. Þar sendi Einar drónann upp í um 500 m hæð y.s. og beindi myndavélinni í átt að Snæfelli. Viti menn, þar fékkst ótvírætt úr því skorið, Snæfell sést svo sannarlega frá hringveginum í Lóni. Fjarlægðin á milli Snæfells og Lóns, þaðan sem tindurinn sést, er 54 km í sjónlínu. Hér er skemmtilegt myndband sem sýnir flugið: Snæfell séð frá Lóni.