Sjónvarpsútsending frá Breiðamerkurjökli 2016
Þann 6. janúar 2016 sýndi bandaríska sjónvarpsstöðin ABC innslag í þættinum „Good Morning America“ í beinni útsendingu frá Breiðamerkurjökli. Amerískur fréttamaður, Amy Robach, ræddi loftslagsbreytingar og bráðnun jökla sem er sterkur vitnisburður þeirra. Þetta var gert sem framhald umfjöllunar af loftslagsráðstefnunni í París.
Útsendingin fór fram á austanverðum Breiðamerkurjökli, inn í svonefndri Þröng við Fellsfjall. Töluvert var gert úr svokölluðum svelgjum, sem eru lóðréttir hringlaga vatnsfarvegir sem myndast í leysingjasvæðum jökla, og hvaða vísindalega þýðingu þeir hafa fyrir jöklarannsóknir. Ísklifrarar sigu niður í opinn 30 m djúpan jökulsvelg, sem er í jöklinum nærri mynni Fremri-Veðurárdals, og klifruðu upp úr honum. Á meðan var drónum flogið fram og aftur og frá þeim fengust stórkostleg myndskeið af jöklinum.
Amy ræddi m. a. við jöklafræðinginn Daniel J. Morgan um jökla, hnattræna hlýnun almennt og síðan Breiðamerkurjökul, kuðunga sem hafa fundist innan marka Jökulsárlóns og ýmislegt fleira. Það kom auðvitað ekki fram í umfjölluninni að Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands sá um að safna efni og upplýsingum um Breiðamerkurjökul og leggja fram tillögur að efnistökum í þessum viðburði, sem mörg hver voru notuð.
Fjöldi starfsmanna kom að útsendingunni. Sjónvarpsstöðin var með 12 manna flokk sem vann að útsendingunni, auk þeirra voru nokkrir íslenskir klifrarar, leiðsögumenn og stjórnendur sem komu við sögu. Hægt er að lesa umfjöllun um þennan viðburð hér:
„Good Morning America náði einstökum myndum á Breiðamerkurjökli“
„Magnaðar myndir frá Breiðamerkurjökli“
„Lærði að bera fram „Breiðamerkurjökull““
Myndirnar sem hér birtast tók Snævarr (SG) á Breiðamerkurjökli þegar á útsendingunni stóð.