Sjónarspil á himni

Árið 2017 byrjar með fallegu sjónarspili á himni, séð héðan frá Hornafirði. Að kvöldi 2. janúar mynduðu reikistjörnurnar Mars og Venus svonefnda samstöðu með tunglinu. Samstaða er þegar reikistjörnur og tunglið eru nærri hvor annarri, séð frá jörðu. Það er fremur algeng sýn og svipað mun gerast þann 31. janúar næstkomandi. Þá verða sömu reikistjörnur í aðalhlutverki en í stað þess að mynda e. k. línu, eins og hér sést, mun samstaðan mynda þríhyrning, með tunglið austan undir Venusi.

Sama kvöld (2. jan.) og samstaðan varð og einnig morgunin eftir, þann 3. janúar, skreyttu glitský suðausturhiminn. Glitský (e. nacreous clouds) eru einnig nefnd „perlumóðurský“ á íslensku. Þau myndast í heiðhvolfinu í 15-30 km hæð og við afar kaldar aðstæður, -70 til -90°C frost. Litbrigði skýjanna skýrist af því að bylgjulengdir ljóssins brotna undir mismiklu horni. Lesa má nánar um glitský í fróðleiksgreinum Veðurstofu Íslands (sjá heimildir).

sg-glitsky20170102_1 sg-glitsky20170103_9 sg-glitsky20170103_7

Heimildir
Halldór Björnsson, 2006. Hvað eru glitský? Veðurstofa Íslands. Vefslóð: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/355
Trausti Jónsson, 2008. Árstíðasveifla glitskýja yfir Íslandi 1964-2002. Veðurstofa Íslands. Vefslóð: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1192