Rostungur við Jökulsárlón.
Á morgunblaðsvefnum frá 16.8.2013 er frétt um rostung við Jökulsárlón. MBL
Hann sást fyrst að morgni 16.ágúst og dvaldi á sandinum neðan við brúna yfir Jökulsá þann dag og fram á nótt. Morguninn eftir var hann á bak og burt.
Á vef Selaseturs Íslands á Hvammstanga er hægt að lesa sér til um rostunga. Þeir eru mjög sjaldgæfir við Ísland, en síðast sást rostungur á Reyðarfirði um miðjan júlí.
Samkvæmt samanburði á þessum tveimur rostungum sést að þar er líklega um sama einstaklinginn að ræða, alla vega eru tennur jafn langar og sú vinstri aðeins styttri. Þetta sést þegar bornar eru saman myndir af moggavefnum og myndir sem Kristján Svavarsson tók af Reyðarfjarðarrostungnum. (sjá á vef Náttúrustofu Austurlands).
Á mynd sem Þórhildur Magnúsdóttir Landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði tók fljótlega eftir hádegi má sjá að hann liggur afslappaður á sandinum og er svolítið rauðlitaður undir húðinni. Rauði liturinn stafar sennilega af því að honum hefur verið heitt og þar sem rostungar eru lítið hærðir sést blóðflæði undir húðinni vel. Myndin sem hér birtist var tekin um kl. 16:30 af Sibylle von Löwis.