Orkurannsóknasjóður styrkir rannsóknir á klettafrú
Náttúrustofa Suðausturlands hefur hlotið 1,5 milljón króna styrk frá Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsókna á lífsferli klettafrúar í Skaftárhreppi og Sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefninu er stýrt af Álfi Birkir Bjarnasyni, starfsmanni náttúrustofunnar, og miðar að því að afla þekkingar á lykilþáttum lífsferils klettafrúar á Íslandi.
Fágæt og sérstök
Klettafrú (Saxifraga cotyledon) er fágæt á heimsvísu og lítt rannsökuð. Á Íslandi vex hún einungis frá Skaftártungu norður í Loðmundarfjörð en utan Íslands finnst hún aðeins í Skandinavíu, Ölpunum og Pýreneafjöllum. Fáar íslenskar plöntur teljast fágætar utan landssteinanna en þar að auki er vaxtarform og lífsferill klettafrúar svo til einstakur í íslenskri flóru.
Klettafrú er þykkblöðungur og hver planta er fjölær en einæxla. Það þýðir að fyrstu ár ævinnar leggur plantan alla orku í vöxt og forðasöfnun, en frestar æxlun. Þegar plantan nær ákveðnum stærðarþröskuldi nýtir hún allan uppsafnaðan forða í einn stórbrotinn blómgunaratburð og deyr að honum loknum. Veðurfar hefur mikil áhrif á æxlun blómplantna. Til að mynda getur slæmt veður árið sem klettafrúin blómstrar aftrað frjóvgun blóma og fræþroska plöntunnar. Þetta gerir hana afar viðkvæma fyrir loftslagsbreytingum af mannavöldum.
Rannsóknir hófust 2023 og halda áfram í sumar
Hingað til hefur klettafrú verið lítt rannsökuð. Markmið þessa verkefnis, sem hófst árið 2023, er að afhjúpa lífsferil klettafrúar á Íslandi. Ekki er vitað hversu mörg ár plantan vex áður en hún blómgast og deyr. Þá er ekki þekkt hversu mikil nýliðun er í stofninum eða hversu margar ungplöntur má áætla að nái fullorðinsaldri og blómgist. Þetta er lykilþekking til að meta þol íslenska stofnsins og hversu viðkvæmur hann er fyrir áföllum og loftslagsbreytingum.
Þegar hefur Náttúrustofan hafið vöktun klettafrúar á fjórum stöðum á Suðausturlandi; í Fljótshverfi, Skaftafelli, á Nesjum og í Lóni. Styrkur Orkurannsóknasjóðs nýtist til áframhaldandi rannsókna á þessari merkilegu tegund. Sumarið 2024 verður lögð áhersla á að rannsaka vaxtarhraða plöntunnar á mismunandi þroskaskeiðum. Farið verður á rannsóknarsvæðin fjögur og stærð merktra plantna borin saman við stærð þeirra sumarið 2023. Þá verður blómgun, nýliðun og afföll plantna skráð og þannig verður unnt að leggja mat á afkomu stofnsins.
Kærar þakkir
Náttúrustofan þakkar Orkurannsóknasjóði kærlega fyrir styrkinn sem gerir okkur kleift að halda þessu mikilvæga verkefni áfram. Árið 2022 hlaut Rannveig Ólafsdóttir, starfsmaður stofunnar, einnig veglegan styrk frá sjóðnum sem nýttist til rannsókna á kolefnisbindingu og -flæði úr jarðvegi í Skaftárhreppi. Það verkefni reyndist vel og stendur vöktun enn yfir.