Sigurjón Andrésson, formaður stjórnar, og Snævarr Guðmundsson, nýráðinn forstöðumaður.

Sigurjón Andrésson formaður stjórnar Náttúrustofu Suðausturlands óskar Snævari Guðmundssyni, nýráðnum forstöðumanni, til hamingju með nýju stöðuna.

Stjórn Náttúrustofu Suðausturlands hefur ráðið Snævarr Guðmundsson í starf forstöðumanns Náttúrustofu Suðausturlands frá og með 1. janúar n.k. Snævarr er með M.Sc. í jarðfræði (jöklafræði) frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í náttúrulandfræði með jarðfræði sem aukagrein. Hann hefur starfað hjá stofunni frá upphafi eða frá árinu 2013. Störf hans hjá Náttúrustofu Suðausturlands hafa mestmegnis tengst jöklum og jarðfræði en hann hefur einnig komið að öðrum fjölbreyttum störfum. Snævarr þekkir vel til starfsemi Náttúrustofunnar og hefur víðtæka reynslu af náttúrufræðirannsóknum og styrkumsóknum. Framtíðarsýn hans rímar vel við þá framtíðarsýn sem stjórn hefur varðandi rekstur Náttúrustofunnar og treystir stjórn honum fyrir því að leiða þá vinnu.