Litmerking helsingja á Breiðamerkursandi
Líkt og tvö síðustu sumur tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum á Breiðamerkursandi í júlí síðastliðnum. Verkefnið er drifið áfram af Arnóri Sigfússyni dýravistfræðing hjá Verkís ásamt fuglafræðingum hjá Wildfowl and Wetland Trust í Bretlandi. Verkefni sem þetta krefjast margra handa og eins og algengt er í vísindaheiminum byggir það á samstarfi stofnanna. Í ár komu til aðstoðar fólk frá stofunni á Höfn, Náttúrustofu Austurlands, Vatnajökulsþjóðgarði, Nýheimum þekkingasetri, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands auk nokkrurra kappsamra sjálfboðaliða. Verkefnið var styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.
Alls voru merktir um 200 helsingjar í ár. Hver fugl sem næst fær lítið stálmerki á vinstri fót með ígröfnu einkennandi númer fyrir viðkomandi fugl, nokkurs konar kennitölu. Gallinn við þau merki er þó sá að erfitt er að lesa af merkjunum nema komast í mikið návígi við fuglana (nokkra metra fjarlægð). Til að leysa þann vanda eru notuð litmerki, þá er settur plasthringur á fuglana sem er gerður á þann hátt að hægt er að lesa af honum úr talsverðri fjarlægð. Mörg mismunandi merkjakerfi eru notuð í heiminum en fyrir helsingjana er notast við einn hring með áletraða tvo bókstafi. Það sem einkennir helsingja sem merktir eru á Íslandi eru óbrotin lína sem aðgreinir stafina tvo.
Tilgangur merkinganna er að geta fylgst með hegðun einstaklinga til að skilja betur atferli fuglanna og svara spurningum eins og hvert fuglarnir fara og hvað þeir eru þar lengi. Út frá því má svo álykta um hegðun stofnsins, ekki síst ef búið að merkja nokkurn fjölda einstaklinga í stofninum. Því fleiri fuglar sem eru merktir því betri upplýsingar fást um atferli og afkomu stofnsins. Lykilatriði er þó að einhver sé til staðar til að lesa af merkjunum þar sem þeir fara um og hvetjum við fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is. Þar sem íslenski helsinginn hefur að mestu vetursetu í Skotlandi er einkar gagnlegt að vera í samstarfi við breska stofnun en fólkið þar er duglegt að lesa af merkjum. Náttúrustofan þakkar öllum sem komu að merkingunum og hlakkar til að fá fréttir af helsingjunum sem merktir voru í sumar.