Landsjöklaskrá

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein eftir Hrafnhildi Hannesdóttur, Odd Sigurðsson, Ragnar H. Þrastarson, Snævarr Guðmundsson, Joaquín M.C. Belart, Finn Pálsson, Eyjólf Magnússon, Skúla Víkingsson og Tómas Jóhannesson þar sem kynnt er skráning íslenskra jökla.  Í skránni eru tekin saman gögn um útbreiðslu jökla frá nokkrum rannsóknahópum og nemendaverkefnum. Þar á meðal eru gögn sem hefur verið aflað á Náttúrustofu Suðausturlands. Gagnasöfn af þessu tagi til þess að stilla af líkön um stærðir jökla og þar af leiðandi loftslagsbreytingar.

Í ágripi segir: Gögnum um útbreiðslu íslenskra jökla hefur verið safnað saman frá nokkrum mismunandi rannsóknarhópum og stofnunum, þau samræmd og yfirfarin og send til alþjóðlegs gagnasafn fyrir slík gögn (GLIMS, sjá nsidc.org/glims). Jöklar á Íslandi náðu ekki hámarksútbreiðslu á sama tíma en flestir þeirra tóku að hörfa frá ystu jökulgörðum um 1890. Heildarflatarmál jökla árið 2019 var um 10.400 km2 og hafa jöklarnir minnkað um meira en 2200 km2 frá lokum 19. aldar, sem samsvarar 18% flatarmálsins um 1890. Jöklarnir hafa tapað um 750 km2 frá aldamótunum 2000. Stærri jöklarnir hafa tapað 10–30% af flatarmáli sínu en miðlungsstóru jöklarnir (> 3–40 km2 árið 2000) hafa tapað allt að 80% flatarmálsins. Á fyrstu tveimur árautugum 21. aldar hafa jöklarnir minnkað um u.þ.b. 40 km2 á ári. Á þessu tímabili hafa margir litlir jöklar horfið með öllu. Gagnasöfn um útbreiðslu jökla eru mikilvæg fyrir rannsóknir á loftslagsbreytingum, til þess að stilla af jöklalíkön, til rannsókna á framhlaupum og á eðli jökla. Þó að framhlap, eldgos undir jökli og jökulhlaup hafi áhrif á stöðu einstakra jökulsporða hafa jöklabreytingar á Íslandi verið fremur samstíga og fylgt að mestu leyti veðurfarsbreytingum frá lokum 19. aldar.