Kolefnismælingar 2023

Nú er þriðja ár kolefnismælinga á Náttúrustofu Suðausturlands komið á fullt skrið. Náttúrustofan hefur síðan í apríl 2021 mælt ljóstillífun og öndun jarðvegs í þremur ólíkum landgerðum í Skaftárhreppi og í ár var fjórða svæðinu bætt við í heiðagróðurlendi sem er einkennandi fyrir Skaftárhrepp. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna vegna kolefnisbókhalds stjórnvalda en upplýsingar um flæði kolefnis í gróðri og jarðvegi nýtast til að meta ástand vistkerfa og þær breytingar sem geta átt sér stað innan þeirra.  

Öndun og ljóstillífun kallast á

Við ljóstillífun nýtir planta sér koltvísýring úr andrúmslofti, vatn úr jarðvegi og sólarljós til að búa til sykursameindina glúkósa og súrefni verður til sem aukaafurð. Glúkósi er keðja kolefnisatóma sem plantan getur síðan nýtt sem orkugjafa til að stækka og vaxa. Þannig getur planta  bundið kolefni úr forða andrúmsloftsins og fært það í forða lífríkisins. Kolefni getur svo losnað aftur út í andrúmsloftið í formi koltvísýrings við ferli öndunar. Öndun er í raun hægur bruni lífrænna kolefnissambanda sem er nauðsynlegur til orkumyndunar. 

Nýir mælihólkar voru settir niður í heiðagróðurinn

Hvernig mælum við jarðvegsöndun?

Til þess að geta mælt gasflæði er notaður sérhæfður og jafnframt viðurkenndur mælibúnaður. Með reglulegu millibili er farið með mælitækin á rannsóknarsvæðin og gasflæði mælt í 9 hólkum sem komið hefur verið fyrir í jarðvegi á hverju svæði fyrir sig. Mælibúnaðurinn mælir gasflæði og birtustig í sérstökum öndunarklefa, og hitastig og rakastig með jarðvegsmæli. Öndunarklefinn er lagður á hvern hólk og mælir breytingu á kolefnisstyrk. Annars vegar þegar sól skín inn í klefann, og bæði ljóstillífun og öndun á sér stað, og hins vegar þegar svört hetta er yfir klefanum þannig að sól kemst ekki að plöntunum. Þá verður engin ljóstillífun og aðeins öndun er mæld. Með þessu móti er hægt að meta bæði heildarbindingu svæðisins og heildarvirkni.

Hvers vegna skiptir það máli?

Gróður er misvirkur að binda kolefni og skiptir þar miklu máli í hvernig ástandi gróðurlendi er. Heilbrigður gróður bindur meira kolefni en hann losar. Einnig getur losnað kolefni frá jarðvegi þar sem gróðurhula er lítil. Þær kolefnismælingar sem hafa verið gerðar í Skaftárhreppi á vegum Náttúrustofunnar koma til með að segja til um hvort kolefnisbinding eigi sér stað í ólíkum gerðum mólendis og nýtast við gerð losunarstuðla Landgræðslunnar. Til að kolefnisbinding eigi sér stað þarf bindingin að vera meiri en öndunin. Kolefnismælingar halda áfram í sumar en mikilvægt er að safna gögnum reglulega til að fá sem raunhæfasta mynd af kolefnisbúskap mólendis. Niðurstöður mælinga geta svo gagnast við að meta hvers konar gróðurlendi hefur heilbrigðan kolefnisbúskap og hvað sé hægt að gera til að viðhalda slíku gróðurlendi.

Kolefnismælingar eins og þessar eru því mikilvægar liður í að afla upplýsinga um ástand vistkerfa á landsvísu. Heilt vistkerfi er heilbrigt og bindur kolefni.  Með slíka vitneskju í farteskinu er hægt að koma í veg fyrir að vistkerfi hnigni og stuðla að bindingu kolefnis í áframhaldandi samstarfi við Landgræðsluna. 

Horft yfir nýja rannsóknarsvæðið. Heiðagróður eins og hann gerist bestur.