Jörðin Fell orðinn hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.
Þann 25. júlí síðastliðinn ritaði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindamálaráðherra, undir friðlýsingu jarðarinnar Fells og nærliggjandi þjóðlenda á Breiðamerkursandi, þ. á m. Jökulsárlóns. Í friðlýsingunni felst að þetta land (alls 189 ferkm) verður hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Ríkið keypti jörðina í byrjun janúar 2017 og við þessa viðbót er þjóðgarðurinn orðinn 14.141 ferkm.
Þessi stækkun bætir í fjölbreytileika Vatnajökulsþjóðgarðs, en þetta er eina svæðið þar sem hann nær að sjó. Enginn vafi leikur á að þetta styrkir ennfrekar við tilnefningu þjóðgarðsins, það er að koma honum á heimsminjaskrá UNESCO.
Á Breiðamerkursandi er vitnisburður um landmótun jökla hvað aðgengilegastur hér á landi. Svo orkuríkt er landið að á fremur stuttum tíma er hægt að nema atburðarás landbreytinga. Hraðastar eru breytingarnar á Breiðamerkurjökli, sérstaklega þar sem jökullinn kelfir í Jökulsárlón. Ísjakarnir eru eitt megin aðdráttarafl lónsins, sem ferðamenn sækjast eftir. Hitt er þó ekki síður mikilvægara að á Breiðamerkursandi eru varplönd ýmissa fuglategunda. Í svo svipmiklu og síbreytilegu landi eru stundaðar vísindarannsóknir, bæði á landmótun og þróun auk landnáms lífríkisins.
Þar sem aðgengi um sandinn er fremur gott er svæðið afar heppilegt til fræðslu um landmótun. Á sama tíma er það jafnframt viðkvæmt og berskjaldað gagnvart ágangi manna. Þess vegna er gott að fá Breiðamerkursand inn í þjóðgarðinn, því það er þá helst þar að tryggð verði verndun hans.