Grógos – verkefni lokið
Á vormánuðum 2023 gáfu Náttúrustofa Suðausturlands og Landgræðslan út lokaskýrslu verkefnisins Grógos – Mat á áfallaþoli vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa gagnvart ákomu sets og fokefna. Markmið verkefnisins var að kortleggja áhrif Skaftárhlaupa á gróður við farveg Skaftár sunnan Skaftárdals og með því greina tegundir og búsvæði sem best þola álagið. Slík þekking gerir okkur fært að beita náttúrulegum lausnum til að bregðast við þeim vanda sem Skaftárhlaupin valda.
Hluti af verkefninu var viðhorfskönnun sem lögð var fyrir heimafólk í Skaftárhreppi og þökkum við þeim sem tóku þátt kærlega fyrir þátttökuna. Þekking þeirra er ómetanlegt innlegg í heildarmynd þessa verkefnis. Verkefnið, sem hófst árið 2020, var samstarfsverkefni Náttúrustofunnar og Landgræðslunnar og viljum við þakka þeim fyrir farsælt samstarf sem og Fanney Ósk Gísladóttur, landfræðingi og lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands sem veitti ráðgjöf. Hér fyrir neðan er stutt ágrip á verkefninu auk samantektar helstu niðurstaðna þess. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.
Ágrip
Skaftárhlaup bera með sér ógrynni af aur sem sest að verulegu leyti til á þeim svæðum sem flóðin ná yfir og getur valdið spjöllum á gróðri. Þegar aurinn þornar verður hann síðan uppspretta efna sem berast með vindi og vatni yfir nærliggjandi svæði með þeim afleiðingum að viðkvæm vistkerfi spillast og lífsgæði íbúa í nálægum byggðum rýrna. Í verkefninu Grógos – Mat á áfallaþoli vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa gagnvart ákomu sets og fokefna var aflað upplýsinga um eiginleika vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa með tilliti til getu þeirra til að standast setákomu og hindra dreifingu fokefna að hlaupi loknu.
Rannsóknarsvæðið var áhrifasvæði Skaftárhlaupa í byggð frá Skaftárdal að norðan, að afleggjaranum að Hunkubökkum að austan og Flögulóni að vestan. Ríkjandi vistgerðir á svæðinu eru mosahraunavist, lynghraunavist og eyðihraunavist. Valin voru sex undirsvæði þar sem áfallaþol einstakra vistgerða og plöntutegunda var metið með vettvangsrannsóknum og greiningu á drónamyndum. Niðurstöðurnar voru síðan bornar saman við vistgerðarkort frá sömu svæðum, byggð á loftmyndum frá 2011. Mosahraunavist hafði gefið mikið eftir á árabilinu frá 2011 til 2022 sem bendir til þess að áfallaþol hennar sé lítið, en lynghraunavist hafði gefið mun minna eftir og hefur því greinilega meira áfallaþol. Miðað við mikla útbreiðslu mosahraunvistar hefur stór hluti svæðisins mjög takmarkaða getu til að þola ákomu setefna og hindra dreifingu þeirra og inn í vistina sækja stórir áfoksgeirar. Svæði þar sem lynghraunavist er ríkjandi hafa verulegt áfallaþol gagnvart ákomu setefna og þar eru ekki áberandi setgeirar. Víða er þó mikið álag á rofjaðra svæða þar sem lynghraunavist er ríkjandi og hætta á frekara rofi. Við rofjaðar var loðvíðir gjarnan ríkjandi og þolir greinilega verulega sandákomu og hindrar frekari dreifingu sands og annarra fokefna. Sama gildir um gulvíði og melgresi. Lúpína þolir einnig verulega sandákomu. Töluvert hefur verið lagt í uppgræðslu á svæðinu en vettvangskannanir bentu til þess að þær ættu víða undir högg að sækja en endurteknar áburðargjafir hafa víða gefið góða raun við að hamla gegn slíku. Lögð var viðhorfskönnun fyrir íbúa svæðisins sem almennt töldu að gróðurfar á áhrifasvæði Skaftárhlaupa hefði breyst mikið en skiptar skoðanir voru á uppgræðsluaðgerðum en almennt samþykki um að tré, runnar og hávaxnar jurtir væru vel til þess fallin að lifa af flóð og binda set.
Byggt á þessum niðurstöðum eru lagðar fram tillögur um aðgerðir/tilraunir til að efla áfallaþol vistkerfa við Skaftá gagnvart setákomu og síðkominni dreifingu setefna. Lögð er áhersla á efla almennar uppgræðsluaðgerðir og styrkja jafnframt þann gróður sem fyrir er, sérstaklega við rofjaðra og áfoksgeira. Einnig eru lagðar fram hugmyndir um að koma upp trjálundum til að takmarka vindstyrk og minnka uppfok fínefna inni á upptakasvæðum þeirra.
Helstu ályktanir
- Vistkerfi á hlaupsvæði Skaftár eru undir miklu álagi vegna jökulhlaupa og síðkominnar dreifingar setefna.
- Hröð framrás áfoksgeira inn í Eldhraunið er mikið áhyggjuefni. Mosahraunavist, sem þar er ríkjandi, hefur mjög lítið áfallaþol gagnvart setákomu og sandfoki. Hrjúft yfirborð hraunsins tefur framrás áfoksgeiranna en það er nauðsynlegt að grípa til markvissra aðgerða til að stöðva þessa þróun.
- Lynghraunvist, sem er víða ríkjandi utan Eldhrauns, hefur verulegt áfallaþol gagnvart setákomu og sandfoki, en er víða að gefa eftir sökum mikils álags.
- Af einstökum innlendum tegundum virðast loðvíðir, gulvíðir og melgresi hafa mest áfallaþol. Loðvíðir er víða ríkjandi í rofjöðrum á svæðum utan Eldhrauns og gegnir greinilega miklu hlutverki við að hindra ágang sands.
- Mikilvægt er að efla almennar landgræðsluaðgerðir á svæðinu en leita jafnframt leiða til að efla náttúrulegt áfallaþol vistkerfa á svæðinu.
- Þörf er á að greina hvar álag er mest og styrkja gróðursamfélög í rofjaðri, til dæmis með áburðargjöf á víði þar sem hann er til staðar.
- Þar sem áfoksgeirar sækja inn í svæði þar sem áfallaþolin gróðursamfélög eru ekki þarf að grípa til markvissra aðgerða við rofjaðar, t.d. sáningu melgresis ásamt gróðursetningu runna- eða trjátegunda sem styrki enn frekar áfallaþol jaðarsins. Þar sem álag er mest gæti þurft að fylgja þessum aðgerðum eftir með uppsetningu fokgirðinga.
- Brýnt er að efla rannsóknir á því hvernig unnt sé að draga úr foki fínefna af setsvæðum yfir nálæg vistkerfi og byggðir. Til dæmis væri áhugavert að koma upp trjáeyjum á upptakasvæðum morstróka, en erlendar og innlendar rannsóknir benda til þess að slíkar eyjar safni í sig lausu efni og dragi úr vindhraða.
- Mikilvægt er að allar aðgerðir taki tillit til þess að þarna eru svæði sem njóta verndar sökum sérstæðrar náttúru.
- Mikilvægt er að kynna skýrsluna heimamönnum og öðrum aðilum sem þetta varðar og taka ákvarðanir um aðgerðir í samráði við þá.
Verkefnið kynnt á Líffræðiráðstefnunni 2023
Til að kynna verkefnið innan fræðasamfélagsins settu Álfur Birkir og Fanney Ósk upp veggspjald sem kynnt var á Líffræðiráðstefnunni í október 2023. Eftir ráðstefnuna var veggspjaldið einnig kynnt á Starfastefnumóti á Höfn í Hornafirði. Það verður í framhaldinu hengt upp á Kirkjubæjarstofu við skrifstofu Náttúrustofunnar á Kirkjubæjarklaustri. Veggspjaldið má einnig sjá á meðfylgjandi mynd.